„Við þurfum að átta okkur á því að stuðningur við aðild að Evrópusambandinu og hvernig það hefur þróast er orðinn örlítill í Bretlandi. Stjórnmálamenn verða að viðurkenna þá staðreynd ef þeir eru að sinna starfi sínu almennilega í stað þess að reyna að sópa henni undir teppið.“
Þetta segir David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, meðal annars í viðtali sem birtist í fimm evrópskum dagblöðum í dag, þar á meðal í franska blaðinu Le Monde og þýska blaðinu Süddeutsche Zeitung, en hann hyggst á næstunni funda með leiðtogum Þýskalands, Frakklands og Spánar í þeim tilgangi að reyna að afla stuðnings við áform hans um að reyna að endurheimta ýmis völd sem Bretar hafa framselt til Evrópusambandsins í gegnum tíðina.
Cameron leggur áherslu á það í viðtalinu að málið snúist ekki um að einstök ríki geti fengið sérmeðferð innan ESB heldur að um verði að ræða heildarendurskoðun á starfsemi sambandsins. Gera yrði ESB sveigjanlegra en það væri í dag. Meðal annars með því að vald gæti færst aftur frá sambandinu til ríkjanna en ekki aðeins frá ríkjunum til stofnana þess en forsætisráðherrann hefur boðað þjóðaratkvæði í Bretlandi um veruna í ESB eftir næstu þingkosningar í landinu.
Þá lýsir hann þeirri skoðun sinni að ESB hafi gengið of langt með regluverki, íhlutunum og afskiptasemi. Forystumenn ríkja sambandsins verði að horfast í augu við vaxandi óánægju í Evrópu með sambandið í stað þess að vona að vandamálið hverfi. Betra væri að sett yrði fram áætlun um það með hvaða hætti mætti koma á nauðsynlegum umbótum innan ESB og þannig tryggja að Bretar gætu hugsað sér að vera þar áfram.
Cameron fundar fyrst með Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, síðar í dag og heldur því næst til fundar við Francois Hollande, forseta Frakklands. Síðast mun hann hitta Angelu Merkel, kanslara Þýskalands.