Margt bendir til þess að Norður-Kóreumenn undirbúi nú sprengingu kjarnorkusprengju neðanjarðar og að þeir hyggi á skot tveggja meðaldrægra flauga. Þetta staðhæfa yfirvöld og leyniþjónusta í Suður-Kóreu sem segja að vart hafi orðið við stóraukin umsvif á Punggye-ri, sem er tilraunasvæði Norður-Kóreumanna.
Flaugarnar sem um ræðir eru taldar vera af Musudan gerð og geta dregið allt að 4 kílómetra. Það dugar til þess að hæfa skotmörk í Suður-Kóreu og Japan og hugsanlega herstöðvar Bandaríkjanna á kyrrahafseyjunni Guam. Verði af sprengingunni, þá yrði það í fjórða skiptið sem Norður-Kóreumenn sprengja kjarnorkusprengju.
„Við erum að reyna að átta okkur á því hvort þeir séu virkilega að undirbúa aðra sprengingu eða hvort um sé að ræða ráðabrugg í því skyni að auka þrýsting á okkur og Bandaríkin,“ er haft eftir háttsettum ráðamanni í Suður-Kóreu í þarlendum dagblöðum í dag. Öryggisráðgjafi forseta Suður-Kóreu segir ekki ólíklegt að flaugunum verði skotið fyrir 15. apríl, sem er fæðingardagur Kim Il-Sung, fyrsta leiðtoga Norður-Kóreu og mikill hátíðisdagur í landinu.
Her Japans hefur fengið þær fyrirskipanir að skjóta niður hverja þá flaug frá Norður-Kóreu sem stefnir í átt að Japan. Slíkt skot norðurkóreska hersins yrði talið mikil ögrun, ekki síst vegna þess að Kínverjar sem hingað til hafa verið einir helstu bandamenn Norður-Kóreumanna á alþjóðavettvangi, vöruðu norðurkóresk stjórnvöld eindregið við slíku framferði um helgina.
„Engum ætti að leyfast að stofna heimshluta í hættu, hvað þá öllum heiminum vegna eiginhagsmuna,“ sagði Xi Jinping, forseti Kína, á alþjóðlegri ráðstefnu í Kína í gær. Hann nefndi Norður-Kóreumenn reyndar ekki á nafn, en engum dylst að við þá er átt. Norður-Kóreumenn eru afar háðir Kínverjum, bæði efnahagslega og stjórnmálalega. Þá sagði utanríkisráðherra Kína, Wang Yi við Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðina uma helgina að Kínverjar myndu ekki líða það að „stofnað yrði til vandaræða við dyr Kína“.
Eftir þriðju kjarnorkutilraun Norður-Kóreumanna í febrúar fór í gang atburðarás, sem jók mjög á spennu á Kóreuskaganum og sér enn ekki fyrir endann á því. Stjórnvöld í Norður-Kóreu staðhæfa að þeim stafi ógn af sameiginlegri heræfingu herja Suður-Kóreu og Bandaríkjamanna í Suður-Kóreu og hafa á undanförnum vikum hótað árásum á bæði ríkin.
Tilraunaskoti Bandaríkjahers á nýrri tegund flugskeyta var af þessum sökum frestað til að koma í veg fyrir að það yrði túlkað sem ógnun.
New York Times greinir frá því í dag að Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn hafi samið áætlun um viðbrögð, geri Norður-Kóreumenn alvöru úr hótunum sínum. Áætlunin hafi það að markmiði að lágmarka líkurnar á því að átökin breiðist út.