Hvað verður um kjarnorkuúrganginn?

Stjórnvöld í Þýskalandi ákváðu í dag að hefja nýja leit að hentugum stað þar sem hægt verður að geyma allan kjarnorkuúrgang í landinu. Undanfarna þrjá áratugi hefur þjóðin verið klofin í málinu og engin endanleg niðurstaða fengist.

Ríkisstjórnin hyggst setja á fót sérfræðinefnd fyrir lok árs 2015. Hlutverk hennar verður að leita að hentugum stað neðanjarðar til að geyma úrganginn, sem kom frá kjarnorkuverum landsins, um alla eilífð.  Staðsetning á að liggja fyrir árið 2031.

Ríkisstjórn Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, ákvað eftir kjarnorkuslysið í Fukushima í Japan árið 2011 að draga úr notkun kjarnorku og er stefnt að því að alfarið verði hætt að nota kjarnorku árið 2022. Í staðinn hyggjast stjórnvöld einblína á vind- og sólarorku auk annarra endurnýjanlegra orkugjafa.

Það á hins vegar eftir að svara spurningunni endanlega hvað eigi að gera við allan kjarnorkuúrganginn sem varð til í kjarnorkuverunum í Þýskalandi á mörgum áratugum. Um er að ræða mörg þúsund tonn af úrgangi.

Búist er við að málið verði eitt af kosningamálunum í Þýskalandi en það styttist í að núverandi kjörtímabili ljúki og Merkel mun sækjast eftir þriðja kjörtímabilinu sem kanslari landsins.

Úrgangurinn hefur verið geymdur til bráðabirgða í Gorleben í Neðra-Saxlandi. Frá því á níunda áratug síðustu aldar hafa kjarnorkuandstæðingar staðið fyrir fjölmennum mótmælum og hafa þeir m.a. reynt að koma í veg fyrir flutning á kjarnorkuúrgangi til Gorleben. Margsinnis hefur slegið í brýnu á milli þeirra og lögreglunnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert