Látnir fá greiddar bætur og eru boðaðir í aðgerðir

Norden.org

Um 35.000 látnir Norðmenn eru boðaðir í rannsóknir hjá læknum og á sjúkrahúsum árlega og á hverju ári eru skiplagðar skurðaðgerðir fyrir 150 látna einstaklinga á sjúkrahúsum í Noregi. Þetta kostar samfélagið gríðarlegar fjárhæðir, en þjóðskrá landsins er fyrir löngu orðin úrelt.

Upplýsingar um andlát geta tekið allt að 80 daga að berast til félagsmálayfirvalda og sjúkrahúsa. Á hverju ári látast um 42.000 Norðmenn, sumir þeirra hafa fyrirhugað aðgerðir eða aðra heilbrigðisaðstoð með löngum fyrirvara og þegar fólk mætir ekki í skurðaðgerðir, þá er farið að grennslast fyrir um það.

Þá kemur stundum í ljós að viðkomandi hafði fallið frá fyrir allnokkru síðan. Talið er að afboðanir aðgerða í slíkum tilvikum kosti norska heilbrigðiskerfið um 60 milljónir norskra króna á hverju ári, um 1,25 milljarða íslenskra króna, samkvæmt frétt Aftenposten.

Fá félagslegar bætur mörgum mánuðum eftir lát

Þá eru einnig mörg dæmi þess að látnir einstaklingar fái greiddar ýmsar félagslegar bætur því að félagsmálayfirvöld vita ekki betur en að viðkomandi sé enn á lífi. Í sumum tilvikum eru  bæturnar greiddar í marga mánuði eftir látið. 

Norsk skattayfirvöld hafa lagt það til við Sigbjørn Johnsen, fjármálaráðherra landsins, að  gerðar verði endurbætur á þjóðskránni. Það sé brýnt verkefni, ekki síst vegna síaukins fjölda innflytjenda. Slíkar endurbætur eru tímafrekar og dýrar og verði þær samþykktar ekki búist við því að þeim verði lokið fyrr en í fyrsta lagi árið 2020.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert