Kostnaður við björgunarpakka Kýpur hefur hækkað í 23 milljarða evra. Þetta kemur fram í drögum að skjali sem lánardrottnar landsins hafa tekið saman. Upphaflegur kostnaður í tengslum við neyðarlánið átti að nema 17,5 milljörðum evra. Hækkunin nemur því 5,5 milljörðum evra.
Fram kemur á vef breska ríkisútvarpsins, að nýja upphæðin þýði að stjórnvöld á Kýpur verða að útvega 13 milljarða evra til að tryggja 10 milljarða evra lánveitingu frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þetta kemur fram í drögunum sem BBC segir að fréttastofur hafi séð.
Upphaflega var talað um að Kýpur þyrfti að útvega 7,5 milljarða evra sjálft til að fá lánið.
Christos Stylianides, talsmaður stjórnvalda á Kýpur, staðfestir þetta.
„Hver ber ábyrgð á þessu? Hvernig lentum við hér? Þetta var ótti við ábyrgð og óákveðni fyrri ríkisstjórnar,“ segir hann.