Sautján ára kanadísk stúlka Rehtaeh Parsons sem var hópnauðgað af fjórum mönnum sem síðan dreifðu myndum af árásinni, lést fyrir eigin hendi á sunnudaginn. Foreldrar hennar segja hana aldrei hafa náð sér eftir atburðinn, sem varð til þess að henni var útskúfað úr samfélaginu.
Í frétt The Huffington Post segir að Rehtaeh, sem var búsett í Nova Scotia, hafi orðið skotspónn skólafélaga sinna og nágranna eftir að fjórir skólafélagar hennar nauðguðu henni í partíi í nóvember árið 2011, þegar hún var 15 ára. Einn þeirra tók myndir af öðrum er hann nauðgaði henni og þær voru síðan látnar ganga manna á milli, á netinu og á samskiptamiðlum.
Sjálf mundi hún lítið eftir árásinni vegna ölvunar, en vinir hennar sneru við henni bakinu og hún varð fyrir linnulausri áreitni vegna þessa.
Áreitnin varð svo mikil, að foreldrar hennar ákváðu að flytja á brott til annarrar borgar. Ofsóknunum linnti þó ekki, því hún fékk áfram skilaboð og hótanir á netinu og í síma.
Málið var kært, en látið niður falla vegna skorts á sönnunum. Háværar kröfur eru nú uppi um að málið verði tekið upp að nýju.
Í síðustu viku gerði Rehtaeh tilraun til að taka eigið líf. Hún lést ekki þá, en varð fyrir varanlegum skaða og lést síðan á sunnudaginn.