Fögnuðu andláti Thatcher á Trafalgar-torgi

Andstæðingar Margrétar Thatcher, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, fjölmenntu á Trafalgar-torgi í miðborg Lundúna í kvöld til að fagna andláti hennar. Talið er að nokkur hundruð manns hafi komið saman á torginu í kvöld.

Námsmenn, vinstrisinnaðir aðgerðarsinnar og fyrrverandi námuverkamenn, sem lögðu niður störf í eitt ár til að mómæla ríkisstjórn Thatcher á níunda áratugnum, skáluðu saman í höfuðborginni í kvöld.

Hópurinn gekk um götur með eftirmynd af Thatcher sem var m.a. búin til úr appelsínugulum plastpokum.

Fjölmennt lið lögreglumanna var í viðbragðsstöðu en fyrr í þessari viku brutust út átök á nokkrum stöðum eftir fréttir bárust af andláti Thatcher. Hún lést af völdum heilablóðfalls 8. apríl sl., 87 ára að aldri.

AFP-fréttastofan segir að stemningin á Trafalgar-torgi í kvöld hafi fremur minnt á kjötkveðjuhátíð heldur en óeirðir. Fólk á öllum aldri kom saman til að dansa, syngja og blása í flautur. Athygli vekur að margir þeirra sem tóku þátt í kvöld voru ekki einu sinni fæddir þegar Thatcher lét af völdum árið 1990.

Lögreglan handtók alls fimm einstaklinga sem þóttu haga sér ósæmilega og voru undir áhrifum áfengis.

Hluti hópsins sem kom saman á torginu í kvöld ætlar að taka þátt í mótmælum sem verið er að skipuleggja fyrir útför Thatcher, sem fram fer 17. apríl nk. Þeir hyggjast standa fylktu liði og snúa baki í kistuna þegar ekið verður með hana um götur Lundúnaborgar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert