29 ára kona meðal látinna í Boston

Krystle Campbell lét lífið í sprengjuárásinni í Boston í gær. …
Krystle Campbell lét lífið í sprengjuárásinni í Boston í gær. Hún hefði orðið þrítug þann 3. maí.

Annað fórnarlamba sprengjuárásanna í Boston í gær hefur nú verið nafngreint. Hin 29 ára gamla Krystle Campbell var uppalin í útjaðri Boston og fylgdist á hverju einasta ári með maraþoninu. Í gær var hún stödd við marklínuna ásamt vinkonu sinni þegar sprengjurnar sprungu. Vinkonan særðist en lifði af.

Fyrr í dag greindu bandarískir fjölmiðlar frá nafni 8 ára drengs, Martin Richard, sem lét lífið í gær þegar hann var að bíða eftir að faðir hans kæmi í mark í maraþonhlaupinu. Alls létu þrír lífið í árásinni, en nafn þriðja fórnarlambsins hefur ekki verið birt. 17 liggja lífshættulega slasaðir á sjúkrahúsi.

Missti aldrei af maraþoninu

Boston Globe birtir í kvöld viðtal við ömmu ungu konunnar sem lést, Krystle Campbell, sem segir að hún hafi alla tíð heillast af gleðinni og hópstemningunni við marklínu maraþonsins. „Hún hefur gert þetta síðan hún var lítil stúlka. Hún missti aldrei af maraþoninu, að fylgjast með á marklínunni,“ segir amman, Lillian Campbell.

Campbell hefði orðið þrítug 3. maí. Hún flutti til Arlington fyrir ári til að annast ömmu sína sem gat ekki séð um sig sjálf lengur eftir skurðaðgerð. „Hún var ein af þeim sem þurfa alltaf að vera að gera eitthvað fyrir aðra. Hún var hörkudugleg og alltaf til staðar þegar ég þurfti á henni að halda,“ segir Lillian Campbell.

Krystle er fjölskyldunni mikill harmdauði. „Ég sagði við son minn í morgun: Þetta er ekki réttlátt. Sonardóttir mín ætti ekki að deyja á undan mér. Engin móðir ætti að þurfa að fylgja barninu sínu til grafar, sama hver þau eru. Engin amma heldur barnabarni sínu, ekki nokkur maður.“

Beið eftir föður sínum við marklínuna

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert