Kjörsóknin einungis 21%

Evrópuþingið.
Evrópuþingið. AFP

Króatar kusu á sunnudaginn tólf fulltrúa á Evrópuþingið sem munu taka sæti á þinginu 1. júlí þegar Króatía gengur formlega í Evrópusambandið. Kjörsóknin var hins vegar ekki mikil eða einungis 20,74%. Hægriflokkurinn HDZ hlaut sex þingsæti, Jafnaðarmannaflokkurinn fimm sæti og Verkamannaflokkurinn eitt.

Fram kemur á fréttavefnum Euractiv.com að kjörsóknin sé nálægt minnstu kjörsókn í kosningum til Evrópuþingsins til þessa en það var við síðustu kosningar til þingsins árið 2009 í Slóvakíu þegar 19,63% kjósenda mættu á kjörstað. Meðalkjörsóknin í ríkjum Evrópusambandsins þá var hins vegar 43,24%.

Dræm kjörsókn hefur meðal annars verið skýrð af stjórnmálaskýrendur með því að kosningabaráttan fyrir kosningarnar hafi verið litlaus og fengið litla umfjöllun. Þá séu þingmennirnir einungis kosnir að þessu sinni til árs setu á Evrópuþinginu en almennar kosningar til þingsins fara fram í maí á næsta ári. Aðrir stjórnmálaskýrendur segja að áhugi Króata á veru í Evrópusambandinu fari einfaldlega minnkandi.

Króatar samþykktu inngöngu í Evrópusambandið í þjóðaratkvæði í janúar 2009 með 66,27% atkvæða en kjörsóknin þá var 43,7%. Samkvæmt niðurstöðum nýjustu skoðanakannana er hins vegar aðeins rétt rúmur helmingur Króata hlynntur því að vera í sambandinu sem einkum er rakið til efnahagskrísunnar á evrusvæðinu.

Frétt Euractiv.com

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert