Höfnuðu hertri byssulöggjöf

Öldungadeild Bandaríkjaþings hafnaði í dag frumvarpi um herta byssulöggjöf, en tillögurnar voru settar fram í kjölfar fjöldamorðsins í barnaskólanum í Newtown í desember. Niðurstaða öldungadeildarinnar telst áfall fyrir Barack Obama sem mælti fyrir lagabreytingunni.

Tillögurnar fólu í sér ítarlegri skoðun á bakgrunni fólk sem hyggst kaupa skotvopn. Atkvæði 60 þingmanna hefði þurft til að samþykkja frumvarpið, en niðurstaðan varð sú að einungis 46 greiddu atkvæði með því og 54 gegn því.

Afp segir frá því að kona sem lifði af skotárás árið 2011, þegar þingkonan Gabrielle Giffords var skotin í höfuðið, hafi verið viðstödd atkvæðagreiðsluna og brugðist við niðurstöðunum með því að kalla á þingheim að skammast sín. Henni var fylgt úr salnum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert