Breivik verður „költ“ fyrirmynd

Anders Behring Breivik lyfti hnefanum á loft í anda öfgamanna …
Anders Behring Breivik lyfti hnefanum á loft í anda öfgamanna í réttarsalnum í Ósló. AFP

Anders Behring Breivik stefnir hraðbyri í að verða „költ“ fyrirmynd. Þessu varar verjandi hans, Geir Lippestad, við. Hann áréttar þó að hægri öfgamenn hafi rétt á að tjá sig og sagði besta vopni gegn hatursáróðri Breiviks vera opna umræðu.

„Ég hef miklar áhyggjur af því að ég fæ stöðugt þau skilaboð frá umheiminum að Breivik sé að verða költ fyrirmynd í ákveðnum kreðsum,“ skrifar Lippestad í endurminningar sínar, sem gefnar voru út á bók í Ósló í dag.

„Við sjáum myndir frá Rússlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi, Grikklandi, Svíþjóð og víðar þar sem hann á sér stuðningsmenn. Breivik er ótvírætt orðin fyrirmynd sem getur haft áhrif á skoðanir og hugmyndir fólks og fyrirætlanir hans gætu haft þær afleiðingar að umbreyta ungu fólki í hryðjuverkamenn frekar en löghlýðna borgara.“

Breivik situr í einangrun en hann var dæmdur í 21 árs fangelsi fyrir fjöldamorðin í Ósló þann 22. júlí 2011. Hann myrti 77 manns og hefur sjálfur lýst voðaverkinu sem „grimmilegu en nauðsynlegu“.

Hugmyndafræði sína birti Breivik á netinu stuttu fyrir morðin í 1.500 blaðsíðna stefnuskrá þar sem hann rekur m.a. fyrirlitningu sína á múslímum, konum og frjálslyndum fjölmenningarsinnum.

Ungt, reitt fólk í leit að sjálfu sér

Lippestad bendir á að úti í samfélaginu sé fjöldinn allur af ungu fólki í leit að sjálfu sér. „Það er fullt af fólki sem er reitt, sem er fyllt vonleysi yfir aðstæðum sínum og sem skortir grundvallarmenntun og réttu tækin í hendurnar sem myndu undir eðlilegum kringumstæðum grafa undan trú þeirra á ofbeldi og alræðisstjórn.“

Lippestad nýtur umtalsverðrar hylli í Noregi eftir málsvörn Breivik, sem þótti vel úr hendi leyst. Hann samþykkti að taka að sér að verja fjöldamorðingjann með þeim rökum að í réttarríki eigi allir rétt á sanngjarnri málsmeðferð, án þess að lögmaðurinn taki sjálfur afstöðu til glæpsins.

Lippestad segir óheppilegt að Breivik skuli eiga samskipti við öfgamenn utan fangelsismúranna, sem margir senda honum aðdáendabréf. „En þetta er eitthvað sem við verðum að umbera á grundvelli tjáningarfrelsisins,“ skrifar Lippestad í bók sinni.

„Lausnin er ekki að banna, heldur að styðja við mótrökin sem eru svo sterk að öfgahugmyndir verða beygðar í duftið.“

Endurminningar Geirs Lippestad komu út á bók í Noregi í …
Endurminningar Geirs Lippestad komu út á bók í Noregi í dag. AFP
Geir Lippestad ræðir við skjólstæðing sinn Anders Behring Breivik á …
Geir Lippestad ræðir við skjólstæðing sinn Anders Behring Breivik á meðan réttarhöldunum stóð í Ósló. AFP
Mikið mæddi á Geir Lippestad meðan réttarhöldunum yfir Breivik stóð.
Mikið mæddi á Geir Lippestad meðan réttarhöldunum yfir Breivik stóð. -
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert