Gríðarleg sprenging í Texas

Hugsanlegt er að um 60-70 hafi látist og hundruð hafi slasast, sumir alvarlega, er sprenging varð í áburðarverksmiðju rétt fyrir utan Waco í Texas í nótt. Hús í nágrenninu hrundu og er fólk m.a. fast í fjölbýlishúsi rétt hjá. Enn er barist við eld í verksmiðjunni og í nærliggjandi húsum.

Sprengingin varð um kl. 00.50 í nótt að íslenskum tíma, 19.50 að staðartíma. Sjónarvottar segja að eldhnöttur hafi stigið til himins er sprengingin varð í verksmiðjunni.

AFP-fréttastofan hefur ekki fengið tölur um mannfall staðfestar. Það hefur BBC ekki heldur fengið. CNN segir að staðfest sé að tveir séu látnir en að slökkviliðsmenn óttist að um 70 manns hafi týnt lífi. Slökkviliðsstjórinn segir í samtali við CNN að slökkviliðsmenn á staðnum telji um 60-70 látna. Það sé hins vegar enn ekki staðfest.

CBS-fréttastofan segir að slökkviliðsmenn sem komu á staðinn hafi særst í sprengingu sem varð í kjölfar þeirrar fyrstu. Sjónarvottur segir að þegar slökkviliðsmenn hafi farið að sprauta vatni hafi orðið sprenging vegna efna, m.a. ammoníaks, sem notað er við áburðarframleiðsluna.

Slökkviliðsmenn vinna nú að því að reyna að ná fólki út, en í nágrenni verksmiðjunnar er fjölbýlishús sem varð fyrir miklum skemmdum. Þar inni er m.a. fólk fast.

Ekki er vitað hvað olli sprengingunni. Hún var svo kraftmikil að hús í nágrenninu hrundu. Þá kviknaði í nærliggjandi húsum, s.s. öldrunarheimili og skóla. Verið er að flytja sjúklinga frá öldrunarheimilinu á næsta sjúkrahús.

Áburðarverksmiðjan er í smábænum West, norður af borginni Waco. Búið er að rýma hálfan bæinn að sögn BBC en þar búa um 2.600 manns.

Í frétt CNN segir að fjöldi slökkviliðsmanna sé á svæðinu að berjast við elda. Sex þyrlur séu notaðar við slökkvi- og björgunarstarf.

Enn er ekki vitað hversu margir létust í sprengingunni.
Enn er ekki vitað hversu margir létust í sprengingunni. Skjáskot af Fox News
Sprengingin í áburðarverksmiðjunni í fjarlægð.
Sprengingin í áburðarverksmiðjunni í fjarlægð. Skjáskot af NRK
Skjáskot af KWTX
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert