Enn er óljóst hversu margir létust í sprengingu í áburðarverksmiðju í bænum West í Texas í fyrrinótt. Lögregla sagði í gær að talið væri að fimm til fimmtán manns hefðu látið lífið en óttast er að mun fleiri hafi látist í sprengingunni.
Yfir 160 manns slösuðust og tugir húsa eyðilögðust í bænum, sem er skammt frá borginni Waco, samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins. Meðal annars er þriggja eða fjögurra slökkviliðsmanna saknað.
Björgunarsveitir og lögreglumenn rýmdu um helming bæjarins í kjölfar sprengingarinnar. Eldar loguðu enn í bænum mörgum klukkustundum eftir sprenginguna og óttast var að önnur sprenging eða gasleki yrði í áburðarverksmiðjunni. Um tíma var einnig talið að íbúunum gæti stafað hætta af eiturgufum.
Sjónarvottar sögðu að stór eldhnöttur hefði myndast þegar sprengingin varð. „Það var eins og kjarnorkusprengja hefði sprungið,“ sagði Tommy Muska, bæjarstjóri West. „Eyðileggingin var gríðarleg,“ hefur fréttavefur CNN eftir lögreglustjóranum Parnell McNamara. „Þetta er eins og stríðssvæði.“
Sprengingin olli jarðskjálfta sem mældist 2,1 stig, að sögn bandarískra jarðskjálftafræðinga. Sprengingarinnar varð vart í allt að 80 km fjarlægð frá áburðarverksmiðjunni.
Ekki var vitað í gær hvað olli sprengingunni. Embættismenn í bænum sögðu að talið væri að sprengingin hefði orðið vegna ammoníaks. Í verksmiðjunni voru um 20 tonn af vatnsfríu ammoníaki, að sögn bandarískra fjölmiðla.
Sprengihætta getur stafað af áburði, sem inniheldur ammúníumnítrat, við meira en 290°C hita, t.a.m. af völdum eldingar eða bruna vegna rafmagnsneista. Sprenging getur þó ekki orðið í áburði, sem inniheldur ammúníumnítrat, nema hann sé geymdur í miklu magni á sama stað, að sögn fréttaveitunnar AFP. Sprengingar hafa orðið í áburðarverksmiðjum vegna ammúníumnítrats, til að mynda í Toulouse í Frakklandi árið 2001 í verksmiðju þar sem 300 tonn af efninu voru geymd. Þá fórust um 30 manns.
Ammúníumnítrat hefur verið notað í sprengjur, t.a.m. í sprengjutilræðinu í miðborg Óslóar árið 2011.