Neita tengslum við bræðurna

-

Vígamenn í Norður-Kákasus neita því staðfastlega að bræðurnir, sem eru taldir hafa komið sprengjunum fyrir við marklínu Boston maraþonsins og kostuðu þrjá lífið og særði 170, tengist þeim á nokkurn hátt.

Á vef sem rússneskir uppreisnarmenn í Norður-Kákasus nota mikið til að koma skoðunum sínum á framfæri kemur fram að Vilayat Dagestan neiti því að uppreisnarmenn í Kákasus hafi komið að hernaðaraðgerðum gegn Bandaríkjunum. „Við eigum einungis í baráttu við Rússland,“ skrifa þeir á vefsíðuna, Kavkacenter.com.

Dzhokhar Tsarnaev, 19 ára, var handtekinn seint á föstudagskvöldið þar sem hann fannst alvarlega særður í bát sem geymdur var í bakgarði í úthverfi Boston. Hann liggur nú alvarlega særður á sjúkrahúsi. Líðan hans er stöðug en hann getur ekki tjáð sig.

Bróðir hans, Tamerlan, lést eftir skotbardaga við lögreglu aðfararnótt föstudags.

Bandaríska alríkislögreglan rannsakar nú mögulega ástæðu þeirra fyrir árásunum. Þeir eru frá Tétsníu en hafa búið í Bandaríkjunum í um tíu ár. Eldri bróðirinn, Tamerlan Tsarnaev, er sagður hafa stundað háskólanám í verkfræði en gert hlé á náminu í eina önn til að stunda hnefaleika. Hermt er að hann hafi stefnt að því að komast í ólympíulið Bandaríkjanna í hnefaleikum. Yngri bróðirinn, Dzhokhar Tsarnaev, hóf nám í læknisfræði fyrir rúmu ári, að sögn föður hans.

Eldri bróðirinn var með sprengiefni innan á sér þegar lík hans fannst eftir skotbardagann, að sögn CNN.

Á vef New York Times kemur fram að ættingjar og vinir þeirra viti ekki til þess að þeir hafi verið í beinum tengslum við hryðjuverkasamtök í Tétsníu. Dzhokhar fékk bandarískan ríkisborgararétt í fyrra en Tamerlan var enn að biðlista eftir slíkum. Faðir þeirra segir að Tamerlan hafi farið ti lTétsníu og Dagestan í fyrra til þess að endurnýja rússneska vegabréfið sitt.

FBI greindi frá því á föstudagskvöldið að árið 2011 hafi erlend ríkisstjórn, sem ekki var tilgreind en nú er sagt að hafi verið sú rússneska, hafi óskað eftir upplýsingum um Tamerlan. Byggðu Rússar beiðnina á upplýsingum um að hann hefði breyst verulega frá árinu 2010 og fylgdi nú öfgafullum múslímum að málum.

NYT hefur það eftir FBI fulltrúa að Rússar hafi óttast hvað Tamerlan hefði í huga og greinilegt hafi verið að þeir hafi haft eitthvað á unga manninn. Töldu rússnesk stjórnvöld að hann gæti ætlað sér að komast í samband við hryðjuverkahópa í Kákasus í ferð sinni þangað.

Í gær var upplýst um að FBI hafi ekki fylgst með Tamerlan þegar hann kom aftur til Bandaríkjanna. Kom fram að fyrri rannsókn hafi ekki leitt neitt í ljós. Er nú hins vegar rannsakað hvort hann hafi verið í sambandi við öfgamenn í ferðinni og jafnvel hlotið þjálfun þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert