Paragvæ paradís eiturlyfjasmyglara

Íbúar Paragvæ kjósa sér nýjan forseta í dag og verður eitt helsta verkefni hans að takast á við eiturlyfjavandann í landinu. Paragvæ er annar stærsti framleiðandi maríjúana í heiminum og mikilvægur liður í kókaínsmygli frá Andesfjöllunum til Brasilíu. 

Skipulögð glæpastarfsemi er stórtæk í Paragvæ þar sem landið er gríðarlega mikilvæg miðstöð eiturlyfjasmygls frá framleiðendum kókaíns til Brasilíu og Evrópu. Eins er gríðarleg framleiðsla á maríjúana í landinu.

Um 6,5 milljónir búa í Paragvæ, sem er hrjóstrugt land á milli Argentínu, Brasilíu og Bólivíu. Eiturlyfjasmyglarar nota flugvélar við smyglið og varpa farmi sínum úr flugvélum í Paragvæ þar sem stjórnvöld þar í landi sinna landamæraeftirliti með hangandi hendi. Þaðan er dópið flutt með flutningabílum og komið til Brasilíu. Eins eru margar fleiri leiðir, með mótorhjólum, bílum og jafnvel á tveimur jafn fljótum.

Að sögn Roberts Acevedo þingmanns eru þó nokkur dæmi um að foreldrar hvetji börn sín tila að smygla frekar fíkniefnum heldur en að fara í skóla enda miklir peningar í húfi. „Litlar stúlkur eiga sér þann draum að giftast fíkniefnabarónum.“

Eiturlyfin marka líf íbúa Paragvæ og fer ofbeldi ört vaxandi og minna aftökurnar oft á það sem gengur og gerist í eiturlyfjastríðinu í Mexíkó. Að sögn þingmannsins finnast hálshöggvin lík, handleggir eru höggnir af og kveikt í fólki.

Blaðamaðurinn Candido Figueredo hefur sérhæft sig í fréttum af eiturlyfjasmygli en hann segir að í hverjum mánuði séu 5 til 25 myrtir í tengslum við eiturlyfjasmygl í Pedro Juan Caballero, þekktum stað meðal eiturlyfjasmyglara. Alls búa 80 þúsund manns þar.

Talið er að yfir sjötíu þúsund manns hafi týnt lífi í eiturlyfjastríðinu í Paragvæ á síðustu sex árum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert