Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, biðlaði í morgun til þjóða heims um að hætta að láta stríðandi aðilum í Sýrlandi vopn í té. Nabil Al-Arabi, leiðtogi Arababandalagsins, segir það ekki koma til greina, en talið er að nokkur ríki bandalagsins hafi látið stjórnarandstæðingum vopn í té og hefur Katar einkum verið nefnt í því sambandi.
Þeir tveir áttu fund í dag um ástandið í Sýrlandi ásamt Hamad bin Jassem Al-Thani, forsætisráðherra Katar.
Á fundi Arababandalagsins í síðasta mánuði var samþykkt að ríkjum bandalagsins væri heimilt að aðstoða sýrlenska stjórnarandstæðinga á þann hátt sem þau teldu rétt, þar með talið að láta þá fá vopn.
„Ef um er að ræða einhvers konar pólitíska sátt gæti þetta gerst en eins og staða mála er í dag kemur þetta ekki til greina, sagði Al-Arabi við fréttamenn í dag. „Ríkisstjórn Sýrlands fær vopn frá tilteknum aðilum,“ sagði hann og sagði að jafnvægi yrði að ríkja.