Stuðningur hefur aukist við Valkost Þýskalands (AFD), nýjan flokk sem vill að Þjóðverjar segi sig frá evrunni og taki aftur upp þýska markið. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birt var í dag er fylgi flokksins nú 5%, sem er lágmark til að fá mann kjörinn á þing.
Fylgi AFD hefur aukist hratt því í könnun sömu stofnunar, INSA, fyrir viku var það þrjú prósent. Þingkosningar fara fram í Þýskalandi í haust, í september.
Könnunin var gerð fyrir stærsta og útbreiddasta blað Þýskalands, Bild. Skýrir blaðið frá niðurstöðunni á forsíðunni í dag undir fyrirsögninni: „Flokkur evru-fjenda á siglingu“. AFD er nýr flokkur og hélt sitt fyrsta flokksþing fyrir röskri viku, 14. apríl.
Flestar kannanir sem birtar hafa verið að undanförnu í Þýskalandi benda til að samsteypustjórn Angelu Merkel hafi naumt forskot á bandalag Jafnaðarmannaflokksins og Græningjaflokksins, eða 43% fylgi gegn 41%. Flokkur Merkel, Kristilegir demókratar, mælast með 38% fylgi og samstarfsflokkurinn, Frjálsir demókratar, með 5%.
Jafnaðarflokkurinn mælist aftur á móti með 26% fylgi og Græningjar með 15%. Einn vinstriflokkur til viðbótar, Vinstriflokkurinn, mælist með 6% fylgi.
Stjórnmálaskýrendur benda á hinn nýja flokk evruandstæðinga, AFD, og segja hann geta átt eftir að raska hlutföllunum og grafið undan stjórnarflokkunum, því hann sæki einkum fylgi inn í raðir stuðningsmanna stjórnarflokkanna.
Ólíkt öðrum flokkum evrufjenda í Evrópu hefur AFD ekki farið inn á þá braut að lýsa fjandskap við innflytjendur. Kjarninn í flokknum er myndaður af kjósendum af millistétt, mennta- og kaupsýslumönnum.
Framkvæmdastjóri Kristilegra demókrata, Hermann Gröhe, gerir lítið úr ógninni af AFD í blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. „Þeir láta sig mótmæli varða meiru en boða lausnir,“ segir hann.