Þýskir evrufjendur sækja í sig veðrið

AFD-flokkurinn vill losa Þjóðverja undan evrunni og taka aftur upp …
AFD-flokkurinn vill losa Þjóðverja undan evrunni og taka aftur upp þýska markið.

Stuðningur hefur aukist við Valkost Þýskalands (AFD), nýjan flokk sem vill að Þjóðverjar segi sig frá evrunni og taki aftur upp þýska markið. Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem birt var í dag er fylgi flokksins nú 5%, sem er lágmark til að fá mann kjörinn á þing.

Fylgi AFD hefur aukist hratt því í könnun sömu stofnunar, INSA, fyrir viku var það þrjú prósent. Þingkosningar fara fram í Þýskalandi í haust, í september.

Könnunin var gerð fyrir stærsta og útbreiddasta blað Þýskalands, Bild. Skýrir blaðið frá niðurstöðunni á forsíðunni í dag undir fyrirsögninni: „Flokkur evru-fjenda á siglingu“. AFD er nýr flokkur og hélt sitt fyrsta flokksþing fyrir röskri viku, 14. apríl.

Flestar kannanir sem birtar hafa verið að undanförnu í Þýskalandi benda til að samsteypustjórn Angelu Merkel hafi naumt forskot á bandalag Jafnaðarmannaflokksins og Græningjaflokksins, eða 43% fylgi gegn 41%. Flokkur Merkel, Kristilegir demókratar, mælast með 38% fylgi og samstarfsflokkurinn, Frjálsir demókratar, með 5%.

Jafnaðarflokkurinn mælist aftur á móti með 26% fylgi og Græningjar með 15%. Einn vinstriflokkur til viðbótar, Vinstriflokkurinn, mælist með 6% fylgi.

Stjórnmálaskýrendur benda á hinn nýja flokk evruandstæðinga, AFD, og segja hann geta átt eftir að raska hlutföllunum og grafið undan stjórnarflokkunum, því hann sæki einkum fylgi inn í raðir stuðningsmanna stjórnarflokkanna. 

Ólíkt öðrum flokkum evrufjenda í Evrópu hefur AFD ekki farið inn á þá braut að lýsa fjandskap við innflytjendur. Kjarninn í flokknum er myndaður af kjósendum af millistétt, mennta- og kaupsýslumönnum.

Framkvæmdastjóri Kristilegra demókrata, Hermann Gröhe, gerir lítið úr ógninni af AFD í blaðinu Frankfurter Allgemeine Zeitung í dag. „Þeir láta sig mótmæli varða meiru en boða lausnir,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert