Fátækum fjölgar í Bretlandi

Útdeilingar matargjafa til fátækra Breta hafa nær þrefaldast á 12 mánaða tímabili, að sögn góðgerðasamtakanna Trussell Trust sem rekur 345 matarúthlutunarmiðstöðvar víðsvegar um landið. Undanfarið hafa samtökin opnað allt að þrjár nýjar miðstöðvar fyrir matarúthlutun á viku.

Árið 2012 gáfu samtökin tæplega 2,5 tonn af mat til þurfandi Breta. Um 350.000 manns þáðu neyðaraðstoð til minnst þriggja daga og eru það 170% fleiri en árið á undan. Chris Mould, framkvæmdastjóri Trussel Trust segir að bresk stjórnvöld verði að gera sér grein fyrir því að þeim fjölgi í Bretlandi sem ekki geta keypt sér mat sökum fátæktar.

„Sá mikli fjöldi fólks sem leitar til hjálparstofnanna vegna þess að það hefur ekki efni á að kaupa sér mat ætti að vera þjóðinni áminning um að við getum ekki hundsað hungur á eigin dyraþrepi,“ sagði Mould í dag.

„Það er hörmulegt að fólk skuli svelta í Bretlandi 21. aldarinnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert