Telur lífslíkur evrunnar takmarkaðar

mbl.is/Hjörtur

Evran hefur takmarkaðar lífslíkur og kann að heyra sögunni til innan næstu fimm ára. Þetta er haft eftir dr. Kai Konrad, einum helsta efnahagsráðgjafa ríkisstjórnar Þýskalands á fréttavef Daily Telegraph. „Evrópusambandið er mikilvægt að mínu mati. Ekki evran. Og ég tel evruna aðeins hafa takmarkaðan möguleika á að lifa af.“

Spurður hvort hann teldi að evran myndi lifa næstu fimm árin sagði Konrad, sem er hagfræðingur að mennt og formaður sérstaks ráðgjafahóps þýskra stjórnvalda, að erfitt væri að nefna ákveðin tímamörk í því sambandi þar sem margir þættir spiluðu þar inn í. „En fimm ár hljómar rökrétt.“

Fram kemur í fréttinni að svartsýn spá Konrads færi þvert á þá opinberu afstöðu þýskra stjórnvalda að halda verði evrusvæðinu saman til þess að tryggja einingu Evrópusambandsins en ummæli hans féllu í viðtali við þýska dagblaðið Welt am Sonntag þar sem rætt var um efnahagserfiðleikana á evrusvæðinu.

Frétt Daily Telegraph

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert