Átök á Everest

AFP

Fjall­göngu­menn á leið upp á topp hæsta fjalls heims, Ev­erest, segja að átök hafi brot­ist út á milli tveggja þekktra evr­ópskra fjall­göngu­manna og inn­lendra leiðsögu­manna um helg­ina. Rann­sak­ar lög­regla nú málið.

Tví­menn­ing­arn­ir, Sviss­lend­ing­ur­inn Ueli Steck, sem þykir einn besti fjallamaður heims, og Ítal­inn Simo­ne Moro, sem hef­ur klifið Ev­erest fjór­um sinn­um, voru kom­ir í 7.470 metra hæð þegar þeir lentu í ill­deil­um við serpa sem voru að fara á tind­inn með hóp.

Banda­rísk­ur fjall­göngumaður sem AFP-frétta­stof­an ræddi við seg­ir að Steck og Moro hafi verið beðnir að bíða um stund á meðan hóp­ur Nepala gengi frá lín­um fyr­ir sinn hóp.

Evr­ópu­bú­arn­ir neituðu að verða við til­mæl­un­um og héldu för sinni áfram en þeir eru að fara nýja leið upp á tind­inn án aukasúr­efn­is.

„Sjerp­arn­ir báðu þá um að hætta að klifra fyr­ir ofan sig á meðan þeir gengju frá lín­un­um en þeir hl­ustuðu ekki á þá. Síðan þegar ís féll á sjerp­ana urðu þeir mjög reiðir,“ hef­ur AFP-frétta­stof­an eft­ir fjall­göngu­manni sem var á svæðinu.

Síðar þenn­an sama dag (laug­ar­dag) fóru sjerp­arn­ir í tjald­búðir þeirra Stecks og Moros og köstuðu grjóti í tjöld þeirra. Þegar tví­menn­ing­arn­ir komu út úr tjöld­um sín­um lentu þeir í rifr­ildi við sjerp­ana og stimp­ing­um.

Þegar sjerp­arn­ir yf­ir­gáfu tjald­búðirn­ar tóku tví­menn­ing­arn­ir og fé­lag­ar þeirra sam­an búnað sinn og lögðu af stað niður fjallið. Er talið að þeir hafi hætt við að reyna að ná á topp­inn.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um AFP-frétta­stof­unn­ar rann­sak­ar lög­regla nú málið en An­ish Gupta hjá Cho-Oyu Trekk­ing, fyr­ir­tæk­inu sem skipu­legg­ur ferðalag Evr­ópu­mann­anna, seg­ist hafa fengið þær upp­lýs­ing­ar að viðskipta­vin­ir þeirra hafi hunsað til­mæli leiðsögu­manna og haldið áfram ferð sinni um ísilagða kletta fyr­ir ofan hinn hóp­inn.

Fyr­ir­tækið hafi fengið þær upp­lýs­ing­ar að ís hafi brotnað und­an leiðang­urs­mönn­un­um og hafi meðal ann­ars einn sjerp­anna fengið klaka­stykki í and­litið. Í kjöl­farið hafi deil­ur brot­ist út.

Sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá lög­reglu dvaldi Steck á sjúkra­húsi í nótt skammt frá fjall­inu en ekk­ert al­var­legt hafi amað að hon­um. Hann flaug síðan snemma í morg­un með þyrlu aft­ur til baka í búðir hóps­ins á Ev­erest. Ræða þeir fé­lag­ar nú hvort þeir eigi að gera aðra til­raun til þess að ná á topp fjalls­ins. 

Yfir þrjú þúsund manns hafa náð á topp Ev­erest allt frá leiðangri þeirra Ed­munds Hillarys og Tenz­ings Norgays árið 1953. Á hverju ári fara hundruð fjall­göngu­manna af stað upp Ev­erest í apr­íl­mánuði en í ár eru þrír Íslend­ing­ar að reyna að ná á topp Ev­erest.

Upp­lýs­ing­ar um Steck á Wikipedia

Upp­lýs­ing­ar um Moro á Wikipedia

AFP
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert