Nú er ljóst að a.m.k. 13 létust og 70 særðust í sprengingu í miðborg Damaskus í Sýrlandi í morgun. Rússneska samgönguráðuneytið hefur bannað öllum rússneskum flugvélum að fljúga inn í sýrlenska lofthelgi. Barack Obama Bandaríkjaforseti viðraði í dag áhyggjur sínar af meintri efnavopnanotkun Sýrlandshers.
Sprengingin varð í Marjeh, sem er hverfi í Damaskus, á svipuðum slóðum og sprengjutilræði sem var beint gegn Wael al-Haqi, forsætisráðherra landsins í gær. Hann sakaði ekki, en sex létust.
Ríkissjónvarpið í Sýrlandi sýndi myndir af vettvangi sprengingarinnar í dag þar sem sjá mátti logandi elda, látið og sært fólk og staðhæfði að um hryðjuverk væri að ræða. Innanríkisráðuneyti landsins stendur skammt frá og þar brotnuðu rúður og miklar skemmdir urðu á verslanamiðstöð í nágrenninu.
Barack Obama Bandaríkjaforseti ræddi stöðu mála í Sýrlandi við Vladimír Pútín, forseta Rússlands í dag. Obama hefur þungar áhyggjur af orðrómi um notkun efnavopna í landinu og er undir nokkurri pressu um að bregðast við, en í fyrra sagði hann að ef Sýrlandsher yrði uppvís að notkun efnavopna þá væri farið yfir „rauða línu Bandaríkjanna“. Bandarísk stjórnvöld grennslast nú fyrir um málið.
Rússneska samgöngumálaráðuneytisins hefur bannað öllum rússneskum flugvélum að fljúga inn í lofthelgi Sýrlands eftir að flugmenn farþegaþotu sögðu að skotið hafi verið að henni á flugi yfir Sýrlandi í gær. Vélin var á leiðinni frá Sharm el-Sheikh í Egyptalandi til rússnesku borgarinnar Kazan. Um borð voru 159 farþegar.
AFP-fréttastofan hefur eftir Interfax að tveimur loftskeytum hafi verið skotið að vélinni frá jörðu í Sýrlandi, en þau hæfðu ekki. Hún skemmdist ekki og lenti án vandkvæða í Kazan.