Framleiðsla vefnaðarvara í Bangladess er aftur komin á skrið en iðnaðurinn hafði legið niðri að miklu leyti eftir að 8 hæða verksmiðjuhús hrundi í síðustu viku. Að minnsta kosti 429 létust í slysinu og fleiri hundruð slösuðust.
Milljónir starfsmanna hafa nú snúið aftur til vinnu, m.a. í höfuðborginni Dakka og næsta nágrenni. Fólkið framleiðir föt fyrir vestrænar tískuvörukeðjur, m.a. Walmart og H&M, en verksmiðjurnar hafa verið lokaðar frá slysinu 24. apríl.
„Allar verksmiðjurnar eru nú opnar og starfsfólk hefur snúið aftur til vinnu,“ segir Shahidullah Azim, varaforseti vefnaðarvöru- og útflutningssamtaka Bangladess. „Við höfum ekki fengið upplýsingar um mótmæli eða ofbeldi.“
Starfsfólk lagði niður störf í kjölfar slyssins en fjölmörg slys hafa orðið í vefnaðariðnaðinum síðustu misseri.
Síðustu daga hefur aðbúnaði og kjörum verkafólksins verið mótmælt en algeng laun eru 40 dollarar á mánuði. Í kröfugöngum 1. maí var helsta krafan sú að bæta kjör þessa fólks.
Um 3 milljónir manna vinna í vefnaðarvöruiðnaði landsins í um 4.500 verksmiðjum.
Stjórnvöld hafa vikið borgarstjóra Savar frá störfum fyrir að samþykkja bygginguna sem hrundi og fyrir að hafa ekki látið rýma húsið er sprungur fundust í því daginn áður en slysið varð.
Mohammad Refayet Ullah hefur verið borgarstjóri í Savar í 14 ár en borgin er í næsta nágrenni Dakka og þar eru fjölmargar fataverksmiðjur.