Undirbýr þjóðaratkvæði um veruna í ESB

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, undirbýr nú lagasetningu sem ætlað er að tryggja að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í landinu um veru þess í Evrópusambandinu. Cameron hafði áður heitið því að slík atkvæðagreiðsla færi fram eftir næstu þingkosningar sem fyrirhugaðar eru 2015 næði Íhaldsflokkur hans hreinum meirihluta þingsæta.

Fram kemur á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph að þessu útspili sé ætlað að stemma stigu við vaxandi vinsældum Breska sjálfstæðisflokksins (UK Independence Party), sem vill að Bretland gangi úr Evrópusambandinu, á kostnað Íhaldsflokksins. Slík lagasetning myndi festa í lög skuldbindingu Camerons til þess að halda þjóðaratkvæði um veruna í sambandinu en Breski sjálfstæðisflokkurinn og aðrir andstæðingar hafa sagt að ekkert sé að marka loforð forsætisráðherrans.

Lagasetningunni væri einnig ætlað að koma til móts við mikinn þrýsting innan Íhaldsflokksins sjálfs um að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram. Fram kemur í fréttinni að lagasetningin muni ennfremur gera þá kröfu til leiðtoga Verkamannaflokksins og Frjálslyndra demókrata að taka skýra afstöðu til slíkrar atkvæðagreiðslu.

Gert er ráð fyrir að Breski sjálfstæðisflokkurinn auki verulega fylgi sitt í sveitarstjórnarkosningum sem fram fóru í Bretlandi í gær en talningu atkvæða er ekki endanlega lokið. Búist er við að fylgi flokksins á landsvísu verði um 20% og muni kosta Íhaldsflokkinn mörg sæti í sveitarstjórnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert