Von stuðningsmanna Francois Hollande, Frakklandsforseta, sem vakin var í veislu á Bastillutorgi fyrir einu ári, þegar hann stók við stjórnartaumunum, hefur breyst í vonbrigði. Fylgi Hollande hefur hrunið og nýtur hann minni stuðnings en Nicolas Sarkozy þurfti nokkurn tíma að sætta sig við sem forseti.
Því sem helst er um að kenna er hækkandi atvinnuleysi, meiri fjárlagahalli og misheppnaðar tilraunir til að koma á boðuðum breytingum. Er svo komið að jafnvel samherjar Hollande hafa misst trúna.
Rúmlega þrjár milljónir Frakka eru án atvinnu og kaupmáttur hefur minnkað. Ekki hefur tekist að minnka fjárlagahalla franska ríkisins sem nam 4,8% af vergri innanlandsframleiðslu á liðnu ári. Stjórn Hollande setti sér það markmið að koma fjárlagahallanum niður í 3,7% í árslok 2013. Það verður að teljast afar ólíklegt.
Fyrir vikið hefur mikill sigur Hollande í forsetakosningunum síðustu breyst í andhverfu sína eftir eitt ár á forsetastóli.