Ætla að segja upp 30 þúsund starfsmönnum

Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals.
Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals. PATRICIA DE MELO MOREIRA

Stjórnvöld í Portúgal áforma að segja upp um 30 þúsund opinberum starfsmönnum. Fyrirhugað er einnig að hækka lífeyrisaldur upp í 66 ár. Tillögurnar eru liður í aðgerðum sem miða að því að Portúgal standist kröfur sem gerðar voru þegar Evrópusambandið veitti ný lán til landsins.

Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals, segir einnig til skoðunar að vinnuvika opinberra starfsmanna verði lengd úr 35 tímum í 40 tíma.

Aðgerðirnar miða að því að spara 4,8 milljarða evra á næstu þremur árum. Margir hafa tekið þátt í að mótmæla niðurskurðaraðgerðum stjórnvalda.

Coelho sagði í gær að með boðuðum aðgerðum þyrftu samstarfsþjóðir Portúgala í ESB ekki að efast um að stjórnvöld í Portúgal ætluðu að standa við skuldbindingar sínar.

Portúgal fékk 78 milljarða evra að láni frá ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2011.

Atvinnuleysi í Portúgal er núna um 18% og hefur aldrei áður verið meira. Því er spáð að samdráttur verði í efnahagslífi landsins á þessu ári.

Í síðasta mánuði komst stjórnlagadómstóll landsins að þeirri niðurstöðu að tillögur stjórnvalda um að afnema orlofsfríðindi opinberra starfsmanna og lífeyrisþega stæðust ekki lög. Nýjustu niðurskurðartillögur miðhægri stjórnarinnar í Portúgal koma í kjölfar þessa dóms.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert