„Skar af útlimi til að bjarga fólki“

Örvæntingarfullir ættingjar bíða fregna við rústir fataverksmiðjunnar í Bangladess.
Örvæntingarfullir ættingjar bíða fregna við rústir fataverksmiðjunnar í Bangladess. AFP

Didar Hossain var að vinna í grennd við fataverksmiðjuna í nágrenni Dakka, höfuðborgar Bangladess, er byggingin hrundi til grunna. Að minnsta kosti 540 létu lífið. Þrátt fyrir augljósa hættu hóf Hossain þegar að leita að fólki á lífi í rústunum.

Hann lýsir atburðunum í viðtali við BBC og segir að fyrst hafi heyrst mikill hávaði. „Ég fór út að glugganum og sá hvað hafði gerst. Byggingin var ekki lengur þarna.“

Hann sagði að rykský hafi myndast og allt hafi orðið dimmt. Hann reyndi að komast út til að hjálpa fólkinu en öryggisvörður í verksmiðjunni sem hann starfaði í vildi ekki leyfa það. Hossain lét þau orð sem vind um eyru þjóta og braust út.

„Við vissum strax að það var fullt af fólki fast í rústunum. Mér fannst það skylda mín að hjálpa fólkinu. Ég sá strax látna manneskju og varð hræddur. En ég safnaði í mig kjarki og hélt áfram.“

Meðal þess sem blasti við Hossain er hann fór inn í rústir hússins var höfuðlaust lík. Hann dró það út úr byggingunni - og hélt svo björgunarstarfi sínu áfram.

„Það var mjög þröngt og erfitt að komast inn,“ segir Hossain. „Ég var hræddur, þetta var hættulegt.“

Hossain sá fljótlega að í rústunum var fólk á lífi. Aðrir vegfarendur höfðu þá komið til aðstoðar og í sameiningu fór hópur þeirra inn í húsið til að reyna að losa um brakið svo fólkið kæmist út.

Hann segist hafa bjargað 34 manneskjum á lífi út úr rústum verksmiðjunnar. Í sumum tilvikum tók langan tíma að losa fólkið. Hann segist t.d. hafa fundið stúlku á lífi daginn eftir að húsið hrundi og hann beið hjá henni í fimm klukkustundir en handleggur stúlkunnar var fastur undir braki.

Hún grét mikið og þegar Hossain kom til hennar grátbað hún hann að bjarga sér jafnvel þótt hann þyrfti að skera af henni handlegginn.

Hossain fór út og sagði lækni sem var á staðnum frá stúlkunni. Sá var hræddur og vildi ekki fara inn í rústirnar. „Hann sagði mér að taka af henni handlegginn og rétti mér hníf og deyfilyf svo ég gæti tekið af henni handlegginn.“

Hossain sagðist hafa vitað að hann yrði að bjarga lífi stúlkunnar. „Ég vildi ekki skera af henni handlegginn, ég reyndi að bjarga henni án þess að hún þyrfti að missa höndina. [...] En það var engin önnur leið og með hennar leyfi þá skar ég af henni handlegginn.“

Stúlkan var með meðvitund meðan á aðgerðinni stóð og fylgdist með. Hún öskraði og Hossain segist hafa öskrað líka. „Ég grét þegar ég sá hana gráta. Mér leið mjög illa en það var engin önnur leið.“

Að lokinni aðgerðinni batt Hossain stúlkuna við sig og skreið út. 

Hossain kom að karlmanni sem hafði fest fót sinn í brakinu. Hann hikaði ekki er sá bað hann um að skera af sér fótinn svo hann kæmist út.

Hann segist enn hugsa um stúlkuna sem hann bjargaði. Hann segir að nú sé hún á sjúkrahúsi og sé á batavegi. 

„Ég fór og heimsótti hana á sjúkrahúsið. Hún horfði á mig áður en ég kom upp að rúminu hennar. Ég spurði hana hvort hún þekkti mig og hún sagðist gera það. Ég hefði bjargað lífi hennar. Ég óskaði henni góðs bata og bað hana að fyrirgefa mér. Ég útskýrði að ég hefði ekki átt neinn annan kost en að taka af henni höndina.“ Hún sagðist sannfærð um að annars hefði hún ekki lifað af.“

Hossain var einn þeirra sem vann allan sólarhringinn í marga daga við björgunarstörf. Hann vann án hvíldar í þrjá sólarhringa. Hann veiktist í kjölfarið og átti erfitt með svefn. „Mér fannst einhver vera að kalla á mig.“

Minningarnar sækja á hann. Hann segist hafa upplifað mikinn hrylling. Hann líti þó ekki á sig sem hetju. Hann hafi einfaldlega verið að hjálpa.

Meira en 540 manns létu lífið og margra er enn …
Meira en 540 manns létu lífið og margra er enn saknað. AFP
Margir leita ættingja sinna eftir hrun verksmiðjunnar.
Margir leita ættingja sinna eftir hrun verksmiðjunnar. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert