„Evrunni hefur, með réttu eða röngu, verið að mestu kennt um það sem gerst hefur í efnahagslífi Evrópusambandsins sem hefur síðan haft óbein áhrif á sænska hagkerfið,“ segir Sören Holmberg, prófessor í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla, í samtali við sænska ríkisútvarpið Sveriges Radio, en samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem unnin var í tengslum við rannsókn sem hann stendur að vilja einungis 9% Svía skipta evrunni út fyrir sænsku krónuna. 76% eru því andvíg.
Fram kemur í fréttinni að um ítarlega rannsókn hafi verið að ræða á afstöðu Svía til Evrópusambandsins sem náði allt frá trausti til Evrópuþingsins til þess hvernig veran í sambandinu hafi haft áhrif á stefnu Svíþjóðar í áfengismálum. Niðurstöður hennar séu mjög afdráttarlausar en þær bendi til þess að afstaðan til Evrópusambandsins hafi almennt versnað síðan efnahagserfiðleikarnir hófust á evrusvæðinu árið 2010.
Holberg segir að það sé ljóst að erfiðleikarnir á evrusvæðinu valdi auknum efasemdum Svía í garð Evrópusambandsins en samkvæmt könnuninni hefur stuðningur við aðild Svíþjóðar að sambandinu minnkað og styðja nú 42% hana en 25% vilja ganga úr því. Árið 2010 var stuðningur við aðild 53%. 30% telja að veran í Evrópusambandinu hafi haft frekar eða mjög jákvæð áhrif á möguleika Svía á að hafa áhrif innan sambandsins en 27% frekar eða mjög neikvæð áhrif. 40% telja hins vegar að aðildin að Evrópusambandinu hafi haft frekar eða mjög neikvæð áhrif á sjálfstæði Svíþjóðar en 9% frekar eða mjög jákvæð áhrif.
Þá vilja einungis 11% Svía að Evrópusambandið verði að einu sambandsríki. „Afgerandi meirihluti Svía er andsnúinn þróun í átt að Bandaríkjum Evrópu. Þeir vilja efnahagsbandalag en vilja ekki fara lengra en staðan er í dag,“ segir Holberg sem bætir við að ef þessar efasemdir Svía um Evrópusambandið verði áfram til staðar í svo miklum mæli gæti það haft áhrif á kosningarnar til Evrópuþingsins á næsta ári.