Karlmaður á tíræðisaldri var handtekinn í Þýskalandi í dag en hann er grunaður um aðild að fjöldamorðum sem fangavörður í útrýmingarbúðum nasista í Auschwitz í Póllandi í seinni heimsstyrjöld.
Saksóknarar í Stuttgart í Þýskalandi segja að talið sé að maðurinn hafi unnið í útrýmingarbúðunum frá haustinu 1941 og allt til lokunar þeirra við enda stríðsins árið 1945.
Maðurinn, sem er 93 ára gamall, var handtekinn á heimili sínu. Hann var fluttur beint fyrir dómara og að því loknu hnepptur í gæsluvarðhald, samkvæmt yfirlýsingu saksóknara. Verið er að undirbúa ákæru á hendur honum.
Ofarlega á lista eftirlýstra nasista
Þýsk yfirvöld neita að gefa upp nafn mannsins, en fjölmiðlar leiða líkur að því að um sé að ræða Hans Lipschis, sem var meðlimur í stormsveit SS, Totenkopf Sturmbann. Hann er jafnframt fjórði efsti maður á lista Simon Wiesenthal stofnunarinnar í Ísrael yfir eftirlýsta nasista.
Lipschis, sem fæddist í Litháen, var veittur þýskur ríkisborgararéttur af nasistum. Hann flutti til Bandaríkjanna árið 1956 en var vísað úr landi 1983 og fór þá aftur til Þýskalands, að talið er.
Öldungurinn sem nú hefur verið handtekinn bjó í bænum Aalen. Hann er sagður hafa fullyrt við yfirvöld að hann hafi starfað sem kokkur í Auschwitz en ekki fangavörður.
50 fyrrverandi starfsmenn Auschwitz til rannsóknar
Rúm milljón manna var myrt af nasistum í Auschwitz-Birkenau útrýmingarbúðunum í Póllandi frá 1940 og þar til Rauði herinn tók þær yfir 27. janúar 1945. Þýsk yfirvöld hafa sett aukinn kraft í að leita uppi eftirlifandi stríðsglæpamenn nasista frá árinu 2011, þegar hinn úkraínski John Demjanjuk var dæmdur. Hann starfaði sem vörður í útrýmingarbúðunum Sobibor í Póllandi.
Niðurstaða dómstólsins þá var sú að hvers konar starf í útrýmingarbúðunum hafi jafngilt samsekt um morð. Þar með var saknæmið útvíkkað verulega frá því að aðeins þeir sem gefið hefði fyrirskipanir um morð teldust sekir.
Demjanjuk var dæmdur í 5 ára fangelsi fyrir aðild að 28.000 morðum. Hann lést á hjúkrunarheimili á síðasta ári á meðan hann beið þess að fá dómnum áfrýjað.
Um 50 eftirlifandi starfsmenn Auschwitz búðanna sæta nú rannsókn í Þýskalandi á grundvelli breytts mats á saknæmi.