Dapurlegt ársafmæli

Francois Hollande forseti Frakklands.
Francois Hollande forseti Frakklands. AFP

Forseti Frakklands, François Hollande, kynnti í dag viðamikið fjárfestingarverkefni en í dag er ár síðan hann var kjörinn forseti landsins. Er hann óvinsælasti maðurinn sem hefur setið á þeim stóli í manna minnum.

Um er að ræða verkefni til tíu ára og nær það yfir mörg svið, svo sem hátækni og orkugeirann. 

Miklar væntingar voru gerðar til Hollande þegar hann hafði betur gegn sitjandi forseta, Nicolas Sarkozy, en þær væntingar urðu að vonbrigðum þegar ekki tókst að vinna bug á efnahagsvandanum. Til að mynda hefur atvinnuleysi ekki mælst jafn mikið í sextán ár og fasteignaverð hefur lækkað mikið.

Frönsku dagblöðin voru óvægin við forsetann í morgun, jafnvel Liberation, sem hingað til hefur verið talið til vinstri, var með mynd af Hollande á forsíðunni undir fyrirsögninni L'HOMME SEUL, eða Maðurinn stendur einn. Blað hægrimanna, Le Figaro, segir að Sósíalistaflokkurinn sé í felum á fyrsta afmælinu.

Í skoðanakönnun sem var birt í dag sögðust 76% aðspurða hafa orðið fyrir vonbrigðum með Hollande.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert