Belgíski líffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Christian de Duve, lést á laugardag 95 ára að aldri. Um líknardráp var að ræða en það er löglegt í Belgíu. De Duve er annar þekkti Belginn sem velur þessa leið til að deyja en árið 2008 lést rithöfundurinn Hugo Claus með aðstoð annarra en hann var með Alzheimer. Belgía var annað landið í heiminum til að heimila líknardráp en Hollendingar riðu á vaðið með því að heimila þau árið 2002.
Í viðtali sem birtist við de Duve fyrir um mánuði síðan í belgíska dagblaðinu Le Soir viðurkennir hann að óttast dauðann. En hann óttist ekki það sem bíði hans eftir dauðann þar sem hann sé trúlaus. „Þegar ég hverf á braut þá hverf ég. Það verður ekkert eftir,“ segir hann í viðtalinu.
De Duve ákvað að fara þessa leið eftir að hafa dottið illa á heimili sínu. Hann ákvað hins vegar að bíða með andlátið þar til sonur hans, sem býr í Bandaríkjunum, kæmi heim til Belgíu, í byrjun maí svo hann gæti dáið með fjölskylduna hjá sér.
Dóttir hans, Francoise, segir í viðtali við Le Soir í dag að það hafi verið friður yfir de Duve þegar hann lést. Hann neitaði að taka róandi töflur áður en hann fékk náðarsprautuna. „Hann yfirgaf okkur með bros á vör og kveðju.“
De Duve var prófessor í líffræði við Saint Luc kennslusjúkrahúsið í Brussel. Hann er höfundur bókarinnar Vital Dust, er fjallar um uppruna lífs í alheiminum. Hann hlaut Nóbelsverðlaun 1974.
Upplýsingar um de Duve á Wikipedia.