Fyrrverandi fjármálaráðherra Þýskalands, Oskar Lafontaine, vill að evrusvæðið verði leyst upp til þess að gera ríkjum Evrópusambandsins í Suður-Evrópu kleift að ná sér á strik efnahagslega. Þetta er haft eftir Lafontaine á fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph og ennfremur að núverandi stefna sé ávísun á hörmungar en hann var fjármálaráðherra Þýskalands þegar evran var sett á laggirnar.
„Efnahagsástandið versnar mánuð eftir mánuð og atvinnuleysi er orðið það mikið að það skapar efasemdir um lýðræðislegar stofnanir sem aldrei fyrr,“ segir Lafontaine. Hann segir aðeins tímaspursmál hvenær ríkin í Suður-Evrópu taki höndum saman og beiti sér gegn forræði Þýskalands innan evrusvæðisins.
Fjármálaráðherrann fyrrverandi segist hlynntur evrusvæðinu en telji einfaldlega að það sé ekki lengur sjálfbært. „Vonir um að tilkoma evrunnar myndi knýja almennt fram skynsamlega hegðun í efnahagsmálum gengu ekki eftir,“ segir hann og bætir við að sú stefna að neyða Spánverja, Portúgala og Grikki til þess að grípa til innri gengisfellingar hefði haft hörmungar í för með sér.