Sonurinn var grunlaus um hryllinginn

Anthony Castro, sonur Ariel Castro, sem grunaður er um að hafa lokað þrjár ungar konur inni í um 10 ár, segist vera gjörsamlega miður sína yfir því að faðir sinn hafi framið svona hryllilegan glæp. Anthony Castro skrifaði fyrir níu árum grein um leitina að Ginu DeJesus og Amöndu Berry.

Ariel Castro er þriggja barna faðir og hann varð nýverið afi í fimmta sinn. Dóttir hans var fyrir nokkrum árum dæmd í 25 ára fangelsi fyrir að skera dóttur sína á háls.

Anthony Castro hefur sagt við blaðamenn að hann sé orðlaus yfir fréttum um að faðir sinn hafi rænt þremur ungum konum og haldið þeim föngnum á heimilinu í um 10 ár. Þetta sé hryllingur sem erfitt sé að skilja.

Sonurinn skrifaði blaðagrein um leitina að stúlkunum

Í júní 2004 birti blað í Cleveland í Ohio grein eftir Anthony Castro um leitina að Ginu DeJesus og Amöndu Berry, en gríðarlega umfangsmikil leit hafði staðið yfir að þeim í marga mánuði. Það þótti afar undarlegt að tvær ungar stúlkur sem bjuggu í sama hverfi hyrfu sporlaust með nokkurra mánaða millibili.

Í greininni ræddi Castro við móður DeJesus og fjallaði um þann ótta sem gripið hefði um sig í samfélaginu eftir að stúlkurnar tvær hurfu. „Eitt er víst að allir í samfélaginu finna til samkenndar með fjölskyldunni og allir eru að taka um Ginu,“ skrifaði Castro í grein sinni árið 2004. Hvorki hann né aðrir í fjölskyldunni vissu að það var faðir hans sem bar ábyrgð á hvarfi stúlknanna.

Húsið þar sem stúlkurnar fundust hefur verið í eigu Ariel Castro í 20 ár. Lögreglan í Cliveland segir ljóst að bræður Castro, Pedro 54 ára og Onil 50 ára, hefðu haft upplýsingar um að stúlkurnar væru í haldi í húsinu. Þeir ættu því aðild að málinu og yrðu væntanlega líka ákærðir.

Nágrannar urðu varir við barnið

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum hafa rætt við nágranna Castro og hafa sumir þeirra sagt að þeir hafi séð ungu stúlkuna sem fannst í húsinu í gær, en hún er talin vera dóttir Amöndu Berry. Ein kona segist hafa séð stúlkuna horfa út um glugga í húsinu, annar segist hafa séð hana úti í garði og sá þriðji segist hafa séð Castro fara með hana út á leikvöll.

Einn maður, sem býr í nágrenni við Castro, segist hafa tekið eftir að hann kom stundum heim með mikið magn af skyndimat. Hann segist hafa velt fyrir sér hvers vegna hann væri að kaupa svona mikinn mat ef hann byggi bara einn í húsinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert