Féllu í öngvit yfir Bretaprins

Ungar konur í valdastofnunum Washington, höfuðborgar Bandaríkjanna, féllu í öngvit þegar Harry Bretaprins hóf í dag vikulanga ferð sína um Bandaríkin. Þannig mátti heyra vein kvenna meðfram göngum Russell-byggingarinnar, þar sem skrifstofur öldungadeildar Bandaríkjaþings eru til húsa, þegar hinn 28 ára gamli Bretaprins skoðaði þar ljósmyndasýningu á vegum Halo sjóðsins. Fyrrnefndur sjóður er stærsta góðgerðarfélag heimsins í baráttunni gegn jarðsprengjum og var sjóðurinn í miklu uppáhaldi hjá Díönu heitinni prinsessu.

Á meðan á sýningunni stóð spjallaði Harry við John McCain, öldungaþingmann Repúblikanaflokksins, og virtist hafa takmarkaðan áhuga á athyglinni frá hinu kyninu. Hvorugur þeirra tjáði sig við fjölmiðla en þó heyrðist til Harry spyrja McCain út í verðlag á jarðsprengjuleitartækjum.

„Hann [Harry] hefur mikinn áhuga á málefnum tengdum jarðsprengjum,“ sagði Guy Willoughby, framkvæmdastjóri Halo sjóðsins í samtali við fjölmiðla í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert