Íhaldið gerir uppreisn

David Cameron horfir íbygginn út um glugga flugvélar. Mynd úr …
David Cameron horfir íbygginn út um glugga flugvélar. Mynd úr safni. ALEXEY NIKOLSKY

David Cameron, forsætisráðherra Breta, stendur frammi fyrir erfiðri atkvæðagreiðslu á miðvikudaginn, þar sem útlit er fyrir að um 100 þingmenn Íhaldsflokksins muni kjósa með þingsályktunartillögu þar sem það er harmað að stefnuræða drottningarinnar hafi ekki innihaldið loforð um atkvæðagreiðslu um aðild Bretlands að Evrópusambandinu.

John Baron, þingmaður Íhaldsflokksins sem andstæður er Evrópusambandsaðild Bretlands, lagði fram tillöguna. Cameron hefur lofað því að nái Íhaldsflokkurinn meirihluta í þingkosningunum 2015 verði haldin atkvæðagreiðsla um aðildina en margir innan flokksins telja það ekki nóg. Cameron er í erfiðri stöðu því að Íhaldsflokkurinn er nú í samsteypustjórn með frjálslyndum demókrötum, sem styðja áframhaldandi aðild. 

Þó að skrifstofa forsætisráðherrans hafi gefið út að Cameron sé rólegur yfir atkvæðagreiðslunni hafa þær fregnir verið í sunnudagsblöðum Breta að ráðherrum hafi verið sagt að þeir mættu ekki undir nokkrum kringumstæðum kjósa með tillögunni. Fordæmalaust sé að ráðherrar myndu greiða atkvæði með tillögu sem beinist gegn stefnuræðu ríkisstjórnarinar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert