Skotbardagar á almannafæri um hábjartan dag, brennandi bílar á götum, menn dregnir út úr bílum sínum og stungnir margsinnis með hnífi, ólögráða unglingar á bak við lás og slá fyrir fólskulega ofbeldisglæpi.
Reglulega berast fréttir af átökum á milli gengja í Danmörku, sér í lagi á Kaupmannahafnarsvæðinu. Á fyrsta ársfjórðungi þessa árs létust tveir í slíkum átökum, 22 hafa særst, tilkynnt hefur verið um 35 skotárásir, 112 gengjameðlimir hafa verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna gruns um aðild að glæpum og 505 voru handteknir 644 sinnum.
Ríkislögreglustjórinn í Danmörku ákvað í mars að veita tíu milljónum aukalega til þessa málaflokks og danska lögreglan hefur á undanförnum mánuðum skorið upp herör gegn gengjastarfsemi og hefur verið fjölgað í þeirri deild lögreglunnar sem hefur með þessi mál að gera og stofnuð sérsveit sem heitir Task Force Øst. Mörgum Dananum er vafalaust létt, enda hafa nokkrum sinnum komið upp aðstæður þar sem lífi og limum blásaklausra vegfarenda er stofnað í stórhættu vegna þessara átaka.
Nokkur fjöldi gengja hefur fest rætur í Danmörku, fjölmennust og rótgrónust eru Hells Angels og Bandidos og ýmsir stuðningshópar þeirra, en fjölmörg önnur eru í landinu. Mörg þeirra kenna sig við sinn borgarhluta eða einstakar byggingar, eins og til dæmis Amager-gruppen, Mjølnerpark-gruppen og Enghave-drengene, önnur bera nöfn á borð við Snake Eyes, Bad Guys, Bloodz, Ugly Bikers, Immortals, Dirty Dogs og Devils Men. Þau af nýrri gengjunum sem hafa verið einna mest áberandi að undanförnu eru Loyal to Familia, LFT og Værebros Hårde Kerne eða VHK en á milli þeirra tveggja er svarinn fjandskapur.
Flestir meðlimir VHK eiga rætur sínar að rekja til Pakistan og gengið hefur tengsl við Hells Angels. Í úttekt dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 á VHK fyrir nokkru kemur fram að það hafi verið stofnað af bræðrum af pakistönskum uppruna árið 2002 og síðan þá hafa meðlimir orðið uppvísir að flestum þeim tegundum afbrota sem hugsast geta og hefur genginu stöðugt vaxið fiskur um hrygg á undanförnum árum í fíkniefnasölu. Nafnið dregur gengið af Værebroparken, sem er hverfi félagslegra íbúða í bænum Bagsværd á Kaupmannahafnarsvæðinu. Núverandi leiðtogi er einn bræðranna sem er 33 ára gamall, en hann hefur reyndar setið á bak við lás og slá frá árinu 2008 vegna morðtilraunar og í fjarveru hans er samtökunum stýrt af yngri bróður hans.
Loyal to Familia (LTF) er líklega nýjasta gengið og meðlimir þess eru innflytjendur búsettir á Norðurbrú, einkum í námunda við Blågårds Plads torgið en einnig koma þeir frá Tingbjerg á Kaupmannahafnarsvæðinu og frá Skovlunde og Kokkedal. Meðlimir skrýðast gjarnan flíkum með skammstöfuninni LTF yfir skotheldum vestum og hafa lausleg tengsl við Bandidos. Talið er að um 75 manns tilheyri LTF og þar af eru nú 40 þeirra í fangelsi af ýmsum ástæðum, flestir í gæsluvarðhaldi. Í frétt danska ríkissjónvarpsins, DR, segir að LTF hafi verið stofnað í fyrra af 26 ára gömlum karlmanni eftir að hann var látinn laus úr fangelsi. Reyndar lítur allt út fyrir að leiðtoginn fari fljótlega aftur á bak við lás og slá, en hann sætir nú ákærum fyrir ofbeldi, rán og morðtilraun.
Hells Angels og Bandidos gerðu friðarsamkomulag í lok 10. áratugarins eftir talsverð átök og þá skiptu gengin tvö landinu meðal annars með sér, hvar hvort um sig mátti hafa starfsemi. Bandidos rufu samkomulagið árið 2010, en eftir langar viðræður náðist nýtt samkomulag sem talið er að líkist því fyrra. Það samkomulag náðist fyrir nokkrum dögum. En þrátt fyrir það eru núna blikur á lofti, nú tekst næsta kynslóð gengja á og aðferðir þeirra eru oft á tíðum talsvert harkalegri en aðferðir gömlu gengjanna.
Reyndar hafði skotbardögum og átökum á milli gengjanna á götum úti fækkað frá því sem var fyrir nokkrum árum, en frá áramótum hefur verið talsvert um skotárásir á götum úti og oft er þar skotið úr bílum á ferð. Í fyrra var lögreglu tilkynnt um þrjár skotárásir á almannafæri, sem tengdust gengjum, en það sem af er þessu ári eru þær á fjórða tuginn.
„Þróunin undanfarna mánuði veldur mér verulegum áhyggjum,” sagði Mikael Ask, rannsóknarlögreglumaður hjá dönsku lögreglunni í samtali við Politiken í febrúar síðastliðnum. „Ég þekki allnokkur dæmi þar sem gengjameðlimir hafa skotið í æðiskasti allt í kringum sig. Sem betur fer hefur enginn látið lífið vegna þess, en það gæti vel hafa gerst og þess vegna reynum við að vera eins sýnileg og mögulegt er,” sagði Ask.
Samkvæmt upplýsingum dönsku lögreglunnar hefur meðlimum gengjanna fækkað og eru nú taldir vera færri en 1.700 talsins. Að undanförnu hafa orðið leiðtogaskipti hjá nokkrum þeirra og það hefur oft haft átök í för með sér.
„Aðferðir gengjanna verða harkalegri í hvert sinn sem þau fá nýjan leiðtoga,” sagði Lau Thygesen í samtali við Politiken nýverið, en hann er aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður deildar gegn gengjastarfsemi hjá Kaupmannahafnarlögreglunni.
Per Larsen fyrrverandi yfirrannsóknarlögregluþjónn hjá Kaupmannahafnarlögreglunni sagði nýlega í samtali við Politiken að hann óttaðist þá þróun sem væri að verða hjá gengjunum. Sífellt fleiri meðlimir þeirra gengju um í skotheldum vestum og því ganga andstæðingar þeirra sífellt lengra til þess að vinna þeim mein, með alvarlegum afleiðingum fyrir almenning. „Það gæti verið góð og gild ástæða til þess að breyta lögum varðandi sölu skotheldra vesta,” segir hann.
Mest hefur mætt á lögreglunni í norðvesturhluta Kaupmannahafnarsvæðisins, einkum í hverfi félagslegra íbúða sem nefnist Tingbjerg, en þar hafa verið átök á milli LTF og VHK. Lögregla hefur gert vopnaleit hjá gengjameðlimum á undanförnum vikum og hefur mikið magn ólöglegra vopna fundist. Til dæmist fundust átta skotvopn hjá karlmanni á fertugsaldri fyrir tveimur vikum, þar á meðal AK-47 árásarriffill. „Við höfum lagt hald á fjölda vopna og það er afraksturinn af aukinni baráttu okkar gegn gengjunum,” sagði Bent Isager-Nielsen rannsóknarlögreglumaður í samtali við Ekstra-Bladet fyrr í vikunni. „Skotárásir í íbúðahverfum eru sérlega hættulegar og stemma þarf stigu við þeim.” Isager-Nielsen segir enga einfalda og fljótlega lausn á vandanum, eigi að komast fyrir þessa starfsemi og átök þurfi yfirvöld að beita sér af fullum þunga.
En hverjir eru í gengjunum? Fyrst og fremst karlmenn sem flestir eru á aldrinum 18-25 ára, þó vissulega séu dæmi um bæði eldri og yngri meðlimi. Flestir eru danskir að uppruna, þrátt fyrir að margir telji að þeir séu fyrst og fremst innflytjendur og oftast er félagslegur bakgrunnur þeirra veikur.
„Þeir koma margir frá heimilum þar sem þeir fá ekki þann stuðning sem þeir þurfa á að halda og þess vegna sækja þeir í félagsskap sem þennan,” segir Mikael Ask, rannsóknarlögreglumaður hjá dönsku lögreglunni, í samtali við danska ríkissjónvarpið, DR.
Í sama streng tekur Karina Jensen hjá Gladsaxe sveitarfélaginu, sem er á Kaupmannahafnarsvæðinu, en hún starfar við að aðstoða unga menn sem vilja yfirgefa gengin „Það sem einkennir þá er að uppvaxtarskilyrði þeirra voru bágborin, talsverður hluti þeirra er með greiningar á borð við ADHD,” segir hún. Hún segir flesta þeirra ungu manna sem vilja hætta í gengjunum hafa orðið fyrir hnífaárásum að minnsta kosti einu sinni. „Gengið er sá félagsskapur sem þeim býðst og það er betra en enginn félagsskapur. Þar fá þeir þá viðurkenningu sem þeir hafa ekki fengið neins staðar annars staðar.”
Jensen segir að yngstu meðlimirnir séu gjarnan fengnir til verka á borð við að standa vörð og fylgjast með því hvort lögreglan sé að koma. Þeir fái greitt fyrir í peningum og fíkniefnum og þannig komist þeir á bragðið. „Flestir átta sig því miður ekki á því hvaða afleiðingar það að vera í gengi getur haft á framtíð þeirra,” segi Jensen. „En sumir gera sér þó grein fyrir því að þeir gætu orðið næstu fórnarlömb átakanna.”