Meirihluti Letta er andvígur því að taka evruna upp samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar en rúmlega þriðjungur er því hlynntur. Þetta kemur fram á fréttavefnum The Baltic Course í dag.
Samtals eru 62% á móti því að taka upp evruna sem er 9% minna en í sambærilegri könnun í október á síðasta ári. 36% vilja taka evruna upp sem er aukning upp á 10% frá því fyrir sex mánuðum síðan.
Lettnesk stjórnvöld stefna að því að taka evruna upp 1. janúar 2014 en Lettar eru skuldbundnir til þess að taka hana upp samkvæmt aðildarsamningi sínum við Evrópusambandið. Ekki er gert ráð fyrir þjóðaratkvæði um evruna.