Bjöllur, fiðrildislirfur og vespur gætu orðið viðbót við mataræði milljarða jarðarbúa og fæða fyrir búfénað á næstu árum eða áratugum. Þetta segir matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna. Hún kallar eftir frekari fjárfestingum í ræktun ætilegra skordýra.
„Ein af mörgum leiðum til þess að takast á við minnkandi fæðuöryggi er í gegnum skordýrarækt til manneldis,“ segir í nýrri skýrslu stofnunarinnar. Einnig er á það bent að skordýr séu næringarrík, innihalda mikið prótín, fitu og steinefni. „Skordýr má finna nánast hvar sem er og þau fjölga sér og vaxa hratt. Þá er vistfræðilegt fótspor þeirra smávaxið miðað við mörg önnur dýr.“
Skýrsluhöfundar eru hins vegar fúsir til að viðurkenna að stærsta hindrunin sé andstyggð margra í hinum vestræna heimi við að borða skordýr. Því er lagt til að matvælaiðnaðurinn og veitingastaðir reyni að bæta orðspor skordýra, meðal annars með því að bjóða upp á rétti sem innihalda skordýr.
Þá er kallað eftir því í skýrslunni að settar verði ítarlegri reglugerðir um málaflokkinn og hafnar frekari rannsóknir á skordýrum til manneldis. „Möguleikinn er fyrir hendi, tækifærin mörg og traust fyrirtæki víðs vegar um heim hugsa sér gott til glóðarinnar.“