Flaug farþegaþotum án réttinda

Svikahrappurinn Michael Fay var ekki með réttindi sem flugmaður farþegaþotu …
Svikahrappurinn Michael Fay var ekki með réttindi sem flugmaður farþegaþotu en framvísaði fölsuðu flugmannsskírteini.

59 ára gamall Bandaríkjamaður, Michael Fay, er á flótta undan lögreglu eftir að hafa verið dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir að villa á sér heimildir sem flugmaður. Hann flaug stórum farþegaþotum um helstu flugvelli heims. Fyrir áratug flaug hann m.a. fyrir íslenska flugfélagið Atlanta.

Málið minnir nokkuð á svikahrappinn fræga Frank Abagnale, sem varð viðfangsefni Leonardo DiCaprio í kvikmyndinni Catch Me if you Can. Abagnale starfaði m.a. sem flugmaður, kennari, læknir og lögmaður án þess að hafa starfsréttindi á þessum sviðum.

Á flótta undan lögreglu og leitar að nýrri vinnu

Michael Fay mun þó ekki hafa verið alls ókunnugur flugi, því hann er sagður hafa verið flugmaður hjá Bandaríkjaher á árum áður. Hann mun þó ekki hafa haft leyfi til að fljúga farþegaþotum en framvísaði bæði fölsuðu flugmannsskírteini og fölsuðu heilbrigðisvottorði.

Nú síðast flaug Fay fyrir líbíska flugfélagið Afriqiyah Airways og lenti m.a. stórum farþegaþotum á Gatwick flugvelli í London, að sögn BBC. Hann var dæmdur í þriggja ára fangelsi fyrir svik þann 3. maí en mætti ekki í dómssal og er nú eftirlýstur af lögreglu. Yfirvöld telja að hann hafi yfirgefið Bretland, þar sem hann bjó að undanförnu, og muni jafnvel reyna að fá vinnu annars staðar sem flugmaður eða flugkennari.

Fay var handtekinn í febrúar 2011 eftir að grunsemdir flugmanns vöknuðu um að ekki væri allt með felldu miðað við hvernig Fay tjáði sig á spjallþræði á netinu. BBC hefur eftir lögreglu að hann hafi þá um 8 mánaða skeið flogið Airbus A320 farþegaþotu fyrir Afriqiyah Ariways.

Flaug fyrir Atlanta fyrir áratug

Árið 2003 starfaði Michael Fay m.a. sem flugmaður fyrir Air Atlanta. Samkvæmt heimildum mbl.is kannast nokkrir íslenskir flugmenn við að hafa flogið með honum í pílagrímsflugferðum félagsins en hann mun hafa gengið undir nafninu Steve Fay á þeim tíma. 

Á þeim áratug sem liðinn er síðan hefur nánast allri yfirstjórn Atlanta verið skipt út. Engu að síður fékk mbl.is það staðfest hjá Atlanta að Fay hafi flogið fyrir félagið, en núverandi stjórnendur segjast ekki geta sagt til um hvernig ráðningu hans bar þar að.

Ráðningarferlið almennt hafi hins vegar tekið miklum breytingum undanfarinn áratug hjá Atlanta, reglugerðir breyst og kröfur verið hertar svo annað eins gæti vart átt sér stað í dag.

Eldklár og úrræðagóður svindlari

Telegraph hefur eftir rannsóknarlögreglumanninum Constable Chris Thorne að Michael Fay sé talinn eldklár og úrræðagóður. „Hann lætur sig almannahag greinilega engu varða fyrst hann er tilbúinn að starfa án þess að hafa til þess réttindi eða heilbrigðisvottorð,“ sagði Thorne.

Fay er sagður hafa séð tækifæri til að komast að í Líbíu þegar efnahagslegir og stjórnarfarslegir innviðir landsins voru veikir í aðdraganda byltingarinnar. Talsmaður Afriqiyah Airways segir að Fay hafi verið ráðinn í gegnum þriðja aðilja sem mælti með honum sem verktaka.

„Ef ekki hefði verið fyrir flugmanninn sem kveikti á perunni þegar hann sá Fay tjá sig á netspjalli þá væri hann kannski enn að stofna öryggi almennings í hættu með framferði sínu án þess að eftir því væri tekið,“ sagði Thorne.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert