Borgar sig ekki að slá evrusent

mbl.is

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði fram í gær nokkrar tillögur varðandi mögulega framtíð 1 og 2 sentamyntar á evrusvæðinu í ljósi þess að kostnaðurinn við að slá hana sé mun meiri en virði hennar. Fjallað var um þetta á fréttavefnum Euobserver.com í gær. Þess má geta að 1 sent er um einnar og hálfrar krónu virði.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá framkvæmdastjórninni að tapið af því að slá slíkar myntir sé um 1,4 milljarðar evra frá árinu 2002. Einnig segir að afstaða almennings í evruríkjunum gagnvart því að hætta notkun 1 og 2 sentamynta sé blendin. Annars vegar virðist fólk hafa talsverðar taugar til þessara mynta og óttast verðhækkanir verði hætt að slá þær. Hins vegar notar fólk þær lítið.

Tillögurnar eru settar fram í kjölfar samráðs við fyrirtæki, neytendasamtök, fjármálaráðuneyti evruríkja, myntsláttur og seðlabanka. Fyrsta tillagan er að myntin verði áfram slegin með tilheyrandi tilkostnaði fyrir evrusvæðið. Önnur tillagan gengur út á að reynt verði að gera myntsláttuna hagkvæmari með annarri samsetningu myntarinnar eða hagkvæmari framleiðslu hennar með öðrum hætti.

Þriðja tillagan gengur út á að strax verði hætt að slá 1 og 2 sentamynt sem er ódýrasta leiðin og sú fjórða að það verði gert smám saman yfir 3-4 ár. Sú leið myndi veita bæði söluaðilum og neytendum meiri tíma til þess að venjast breytingunni. Tillögurnar verða næst bornar undir ríki evrusvæðisins og Evrópuþingið áður en endanleg ákvörðun verður tekin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert