Njósnarar hengdir í Íran

Frá Teheran höfuðborg Írans.
Frá Teheran höfuðborg Írans. AFP

Tveir menn voru teknir af lífi með hengingu í Íran í dag, en þeir voru sakfelldir fyrir njósnir í landinu fyrir Ísrael annars vegar og Bandaríkin hins vegar að sögn saksóknara í Íran.

Mohammad Heydari var fundinn sekur um að þiggja greiðslur fyrir að útvega ísraelsku leyniþjónustunni Mossad margvíslegar upplýsingar sem vörðuðu öryggi og ríkisleyndarmál Íraks á þráfelldum fundum.

Koroush Ahmadi var fundinn sekur um að útvega CIA leyniþjónustu Bandaríkjanna leynilegar upplýsingar um margvísleg málefni í Íran.

Ekki voru frekari upplýsingar gefnar frá saksóknara um mennina tvo. Íran lítur á Ísrael og Bandaríkin sem höfuðandstæðinga sína og sakar stjórnvöld þessara ríkja um að standa í ófrægingarherferð gegn kjarnorkuáætlun Írans. Nokkur fjöldi manna sem sakaður er um njósnir hefur verið handtekinn á síðustu árum.

Í maí í fyrra var maður að nafni Majid Jamali Fashi tekinn af lífi fyrir njósnir fyrir Mossad og fyrir að spila lykilhlutverk í morði á helsta kjarnorkuvísindamanni Írans í janúar 2010. Fyrir aðild sína var Fashi sagður hafa fengið greitt sem nemur 14 milljónum króna frá Ísrael.

Þá er bandarísk-íranski ríkisborgarinn Amir Mirzai Hemati í haldi Írana. Hann er fyrrverandi sjóliði í Bandaríkjaher og er sakaður um að vera útsendari CIA þrátt fyrir að bæði fjölskylda hans í Íran og stjórnvöld í Bandaríkjunum hafni því alfarið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert