46% kjósenda í Bretlandi vilja að landið segi sig úr Evrópusambandinu, samkvæmt tveimur nýjum skoðanakönnunum sem gáfu samhljóða niðurstöður og birtar eru í Sunday Telegraph og Independent on Sunday í dag.
Íhaldsmenn í Bretlandi vilja að boðað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið árið 2017 og lagði David Cameron fram frumvarp þess efnis á þinginu í síðustu viku.
46% stuðningur er hærri en áður hefur mælst við tillöguna um að hætta aðild Bretlands að ESB. Aðeins 30% sögðust vilja vera áfram í Evrópusambandinu en aðrir voru óákveðnir, samkvæmt skoðanakönnun Telegraph.
Í könnun Independent kemur fram að einn af hverjum fjórum Bretum vilji vera áfram í ESB, en stuðningur við aðild eykst þó og mælist 43% gegn því skilyrði að Bretar fengju „einver völd“ aftur í sínar hendur.
Samkvæmt könnun Telegraph vilja 44% kjósenda að kosið verði um aðild nú þegar, en 29% segjast sátt við bíða fram til 2017.