Breski sjálfstæðisflokkurinn (UK Independence Party) mælist með 19% fylgi samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið ComRes gerði fyrir breska dagblaðið Sunday Mirror. Stuðningur við flokkinn hefur aukist um 4% frá síðustu könnun.
Fram kemur í fréttinni að fylgi Verkamannaflokksins mælist enn mest bresku stjórnmálaflokkanna eða 35% en hafi engu að síður dregist saman um þrjú prósentustig frá síðustu könnun. Íhaldsflokkurinn er með 29% fylgi og samstarfsflokkur hans í ríkisstjórn, Frjálslyndir demókratar með 8%. Væru þingkosningar haldnar nú fengi Verkamannaflokkurinn 74 þingsæta meirihluta á breska þinginu en Breski sjálfstæðisflokkurinn fengi hins vegar ekkert sæti þrátt fyrir fylgisaukninguna vegna kosningakerfisins sem byggist upp á einmenningskjördæmum.
Samkvæmt sömu könnun vilja 46% yfirgefa Evrópusambandið en 24% vera þar áfram innanborðs. Ef breskum stjórnvöldum tækist hins vegar að endurheimta ákveðin völd frá sambandinu myndu 43% vilja áframhaldandi aðild en 24% eftir sem áður segja skilið við það. Þá sögðust 26% telja að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins, stæði sig vel í embætti og 31% að Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins, væri að gera góða hluti í því hlutverki.