Breska flugmóðurskipið HMS Ark Royal sigldi úr heimahöfn sinni í Bretlandi í síðasta sinn í dag en skipið hefur verið selt til Tyrklands í brotajárn. Ástæðan er niðurskurður í breska sjóhernum en hann verður nú að vera án þess að geta sent orrustuþotur á loft á hafi úti fram til ársins 2020 þegar stefnt er að því að taka í notkun tvö ný slík skip.
Fjölmenni kom saman í höfninni í Portsmouth á suðurströnd Englands til þess að kveðja HMS Ark Royal samkvæmt frétt AFP og báru sumir svört sorgarbönd á handleggjum sínum. Flugmóðurskipið var stærsta skip breska sjóhersins ásamt systurskipum sínum HMS Illustrious og HMS Invincible. Það síðastnefnda var selt í brotajárn árið 2011 en HMS Illustrious er notað sem móðurskip fyrir herþyrlur. Vonast er til þess að hægt verði að varðveita skipið eftir að það verður aflagt á næsta ári.
HMS Ark Royal var tekið í notkun árið 1981 og upphaflega stóð ekki til að leggja því fyrr en eftir fimm ár. En vegna aðhaldsaðgerða ríkisstjórnar Bretlands var ákveðið að flýta því en með því er gert ráð fyrir að yfir 100 milljónir punda sparist. Áður hafði verið tekin ákvörðun um að leggja af flugsveit Harrier-herþotna sem hafðar voru um borð í skipinu.
Fimm bresk herskip hafa áður borið nafnið HMS Ark Royal og voru þau öll flugmóðurskip fyrir utan það fyrsta sem var seglskip sem tók þátt í því að sigrast á flotanum ósigrandi sem Spánverjar sendu af stað til þess að hernema England árið 1588 en varð ekki kápan úr því klæðinu.