Fengu 8-12 mínútna fyrirvara

Eyðilegging hvert sem augað eygir. Þannig er um að litast í birtingu í bænum Moore, í útjaðri Oklahoma, eftir hamfaraveðrið sem gekk þar yfir í gær. Hvirfilbylir eru tíðir í Oklahoma en eyðileggingarkrafturinn í gær kom flestum að óvörum. Sjónarvottar segja líkast því að keilukúla hafi farið yfir og jafnað allt við jörðu.

Staðfest er að 51 sé látinn en búist er við því að a.m.k. 40 lík eigi eftir að finnast. Auk þess hafa a.m.k. 145 verið lagðir inn á sjúkrahús í Oklahoma. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir og mun Barack Obama Bandaríkjaforseti flytja þjóðinni ávarp síðar í dag.

Enn leitað í rústum barnaskóla

Meðal hinna látnu eru a.m.k. 20 börn, flest yngri en 12 ára. Skólinn þeirra, Plaza Towers grunnskólinn, tættist í sundur þegar hann varð fyrir bylnum. Um 75 nemendur og kennarar voru í byggingunni og í birtingu í morgun var enn leitað af kappi í rústunum en óljóst er hversu margir kunna enn að vera þar, lifandi eða látnir.

Ekkert rennandi vatn er nú í Moore og um 35 þúsund manns eru án rafmagns. Sjónarvottar segja að tryllingslegt hafi verið um að litast meðan stormurinn gekk yfir, bílar köstuðust upp á húsþök og hestar og gæludýr tókust á loft og feyktust burt.

Fyrirvarinn aðeins örfáar mínútur

Oklahoma stendur á algengum hvirfilbyljaslóðum (e. tornado ally) en veðurfræðingar segja að bylurinn í gær hafi um margt verið óvenjulegur. Hann mun hafa þróast mjög hratt frá því að vera sakleysislegur stormur yfir í að vera bylur af stærðinni EF-4, sem þýðir að vindhraðinn hefur náð 267-322 km hraða á klukkustund.

Fram kemur hjá CNN að þegar mannskæður hvirfilbylur ölli dauða 44 árið 1999 hafi viðvaranir verið gefnar með um klukkustundar fyrirvara. Í gær hafi fólk ekki fengið nema 8-12 mínútur til að bregðast við og koma sér í varnarskýli neðanjarðar.

Börnin í Plaza Towers grunnskólanum þrýstu sér upp að veggjunum. Inni á einu baðherbergjanna skipaði kennarinn 6 börnum að leggjast á gólfið og lagðist hún svo sjálf ofan á þau til að hlífa þeim. Þau sluppu öll á lífi.

Eftir um 50 km leið féll vindhraðinn niður á nýjan leik. Óveðrið stefnir nú yfir norðurhluta Texas, Arkansas og Louisiana, samkvæmt CNN.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert