Þingið í Venesúela hefur samþykkt að veita 79 milljónum dala, sem samsvarar um 9,7 milljörðum kr., til innflutnings á salernispappír og öðrum hreinlætisvörum, en landsmenn búa nú við mikinn skort á almennum hreinlætisvarningi.
Miklar olíulindir eru í Venesúela en þrátt fyrir það hafa landsmenn þurft að líða tímabundinn skort á ýmsum nauðsynjavörum frá því verðlagseftirliti var komið á árið 2003 undir stjórn Hugo Chavez, fyrrverandi forseta landsins, sem lést af völdum krabbameins í mars sl.
Ríkisstjórn landsins hefur sakað mið-hægrimenn, sem eru í stjórnarandstöðu, og stjórnvöld í Bandaríkjunum um að reyna að grafa undan sósíalísku byltingu Chavezar. Þeir segja að hræðsluáróður hafi leitt til þess að almenningur hafi farið að hamstra vörur.
Féð, sem þingið samþykkti að taka að láni, verður nýtt til að kaupa 39 milljónir rúllur af salernispappír, 50 milljón handþurrkur, 10 milljón stykki af sápu, 17 milljónir stykki af einnota bleium og þrjár milljónir af tannkremstúpum.