Saksóknari sem fór fram á að fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, Silvio Berlusconi, yrði dæmdur í sex ára fangelsi hefur fengið hótanir sendar. Þar á meðal bréf með tveimur byssukúlum.
Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu saksóknara í Mílanó hefur Ildu Boccassini borist fjöldinn allur af hótunarbréfum undanfarið en steininn tók úr í gær þegar hún fékk sent bréf með tveimur byssukúlum, segir Edmondo Bruti Liberati, yfirsaksóknari í Mílanó.
Á vef breska ríkisútvarpsins hefur Boccassini einnig krafist þess að Berlusconi verði bannað að gegna opinberu starfi það sem eftir lifir ævinnar, fyrir að misnota vald sitt og greiða fyrir þjónustu vændiskonu undir lögaldri.
Dómur verður kveðinn upp í málinu þann 24. júní.
„Það leikur enginn vafi á því að Silvio Berlusconi er sekur um þá glæpi sem hann er sakaður um. Hann hafði mök við hana og hann vissi að hún var undir lögaldri,“ sagði saksóknarinn Ilda Boccassini í réttarsal í Mílanó þann 13. maí, á lokadegi réttarhaldanna sem staðið hafa í tvö ár.
Berlusconi er m.a. ákærður fyrir að hafa nokkrum sinnum greitt fyrir mök með marokkósku stúlkunni Karima El-Mahroug, sem gekk undir nafninu Ruby í starfi sínu sem erótískur dansari og, að sögn saksóknara, vændiskona.
Berlusconi er einnig sagður hafa þrýst á lögreglu að leysa El-Maghroug úr haldi þegar hún var handtekin fyrir smáþjófnað, af ótta við að hún segði alla söguna, og þannig misbeitt valdi sínu sem forsætisráðherra.