Þýskaland vinsælasta ríki heims

Frá Berlín, höfuðborg Þýskalands.
Frá Berlín, höfuðborg Þýskalands. AFP

Þýskaland er vinsælasta ríki heimsins þrátt fyrir áberandi mótmæli gegn áherslum þýskra ráðamanna á aðhaldaaðgerðir innan Evrópusambandsins. Þetta er niðurstaða árlegrar skoðanakönnunar breska ríkisútvarpsins BBC sem birt var í dag.

Rúmlega 26 þúsund manns um allan heim voru beðnir um að gefa sextán ríkjum einkunn byggt á því hvort hnattræn áhrif þeirra væru að mestu jákvæð eða neikvæð. Um 59% af þeim sem tóku þátt sögðu Þýskaland hafa að jákvæð áhrif. Fæstir sögðu hins vegar að Íran hefði jákvæð áhrif eða 15%.

Jafnvel á Spáni, sem hefur glímt við mikla efnahagserfiðleika og þurft að sætta sig við aðhaldsaðgerðir að ekki síst að kröfu Þjóðverja, sögðust 68% telja að Þýskaland hefði að mestu jákvæð áhrif í heiminum.

Grikkir, sem einnig hafa glímt við miklar efnahagshremmingar og þurft að þola aðhaldaaðgerðir að kröfu Þjóðverja, gáfu Þýskalandi verstu einkunnina en 52% sögðust telja landið hafa slæm áhrif.

Japan var í efsta sæti á síðasta ári en vinsældir landsins lækkuðu hins vegar í ár úr 58% í 51%. Í öðru sæti er Kanada og í því þriðja Bretland, en 55% töldu að löndin tvö hefðu jákvæð áhrif í heiminum. Með Íran í neðstu þremur sætum listans eru hins vegar Pakistan og Norður-Kórea.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert