Franskir tollverðir lögðu nýverið hald á 1,2 milljónir skammta af fölsuðu aspíríni frá Kína en um er að ræða mesta magn af slíku sem lagt hefur verið hald á bæði í Frakklandi og innan Evrópusambandsins samkvæmt frétt AFP í dag.
Vörurnar voru gerðar upptækar 17. maí síðastliðinn í hafnarborginni Le Havre en þær voru faldar í tefarmi frá Kína. Innihaldið var aðallega glúkósi en engin virk efni var að finna í hinum meintu lyfjum.
Til stóð að vörurnar færu til spænsks fyrirtækis sem hugðist dreifa þeim á Spáni og í Portúgal sem og frönskumælandi hluta Afríku.