Fyrsta samkynhneigða parið til að ganga í hjónaband í Frakklandi eftir að ný lög voru sett í landinu ætla að giftast á miðvikudag í Montpellier. Enda er borgin oft nefnd San Francisco Frakklands vegna þess hversu jákvæðir borgarbúar eru í garð samkynhneigðra.
Hart hefur verið deilt setningu laganna í Frakklandi þar sem samkynhneigðum er heimilt að ganga í hjónaband og ættleiða börn. Að minnsta kosti 150 þúsund mótmæltu lagasetningunni í París í gærkvöldi.
Eru það Vincent Aubin, fjörtíu ára, og Bruno Boileau, 30 ára, sem ríða á vaðið í Montpellier þann 29. maí. Fer hjónavígslan fram í ráðhúsi Montpellier og gera hjónaefnin sér grein fyrir því að brúðkaupið eigi eftir að vekja mikla athygli fjölmiðla. Meðal annars hafa tveir ráðherrar boðað komu sína en alls hafa 600 gestir tilkynnt að þeir muni mæta, þar af 130 blaðamenn.
Er það borgarstjórinn í Montpellier, Helene Mandroux, sem mun gefa þá saman. Hún hefur áður gefið samkynhneigt par saman, þá Tito Livio Santos Mota og Florent Robin, en um táknræna athöfn var að ræða áður en lögin voru samþykkt. Hún segist ekki vilja neinn fjölmiðlasirkus inn í ráðhúsið enda sé hún ekki sú manngerð sem sækist eftir athygli.