Áhættusöm tilraun að hafa óheftan aðgang að klámi á netinu

Börn hafa greiðan aðgang að klámi á netinu.
Börn hafa greiðan aðgang að klámi á netinu. AFP

Sterk tengsl eru á milli ofbeldisfulls kláms og hegðunar barns sem horfir á slíkt, samkvæmt nýrri breskri skýrslu. Niðurstaða skýrslunnar er m.a. sú að vernda þurfi börn fyrir klámi á netinu.

Börn hafa greiðan aðgang að ofbeldisfullum myndum á netinu og slíkt felur í sér áhættu á að viðhorf þeirra til náinna sambanda og kynlífs brenglist, samkvæmt niðurstöðu nefndar sem skilaði af sér skýrslu á fimmtudag.

Niðurstaðan er m.a. sú að börn sem horfa á klám á netinu eru líklegri en önnur til að þróa með sér áhættuhegðun í kynlífi og að byrja að stunda kynlíf fyrr.

Nefndin segir brýnt að grípa til aðgerða og mælir með því að menntamálaráðuneytið tryggi að allir skólar bjóði upp á árangursríka fræðslu um kynlíf og náin sambönd, m.a. um hvernig eigi að nota netið með öruggum hætti.

„Á okkar tímum eru ofbeldisfullar myndir innan seilingar fyrir mjög ung börn... jafnvel þó að þau séu ekki að leita að þeim, vinir þeirra geta sýnt þeim þær eða þau geta rekist á þær á flakki sínu um netið,“ segir Maggie Atkinson, sem sat í nefndinni sem gerði skýrsluna, í frétt breska blaðsins Guardian.

„Við höfum lengi haft aldurstakmörk á kvikmyndir í kvikmyndahúsum en núna leyfum við aðgang að mun grófari myndum á netinu. Það er mjög áhættusöm tilraun að leyfa heilli kynslóð ungs fólks að alast upp við klám.“

Skýrslan byggir m.a. á samantekt á akademískum rannsóknum og m.a. þess sem fram kemur í henni er að klám geti haft áhrif á viðhorf barna til náinna sambanda og auki áhættu á því að þau taki þátt í áhættusömu kynlífi, s.s. óvörðu kynlífi og endaþarmsmökum. 

Sue Berelowitz, sem fer fyrir nefndinni, segir að meðal þess sem fram hafi komið sé að ungir kynferðisbrotamenn sem m.a. hafi tekið þátt í hópkynlífi, lýsi athöfnum sínum „eins og að vera í klámmynd.“ Hún segir skýrslu nefndarinnar sýna fram á að sterk tengsl séu á milli kláms og hegðunar barna.

Í nýlegri íslenskri rannsókn á meðferð nauðgunarkæra á Íslandi kom fram að í 19% tilvika á ákveðnu tímabili mátti sjá skýr tengsl við klám.

Sjá frétt Guardian um skýrsluna í heild hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert